Örvitinn

Ruslskattahækkun R listans

Magnað að fylgjast með því hvernig almannatengslatæknin er farin að stýra pólitískri umræðu. Nú er ekki verið að hækka sorphirðugjald um 30%, nei það er verið að bjóða fólki að spara í sorphirðu með því að láta fjarlægja sorpið sjaldnar.

En hverjir haldið þið að hafi minnst val um að láta fjarlægja sorpið sjaldnar? Kannski barnafjölskyldur? Fólk með bleyjubörn? Auðvitað er þetta lítið mál fyrir barnlaust fólk, hvort sem það er ungt eða komið yfir barneign, en það fylgir því einfaldlega meira rusl að vera með barnafjölskyldu, hjá því verður ekki komist. Jafnvel þó blöðin og mjólkurfernurnar fari alltaf í Sorpugáma. Það er engin lausn að keyra með venjulegt heimilissorp á gámastöðvar, eiginlega er það gríðarlegt óhagræði fyrir samfélagið að hafa þann hátt á.

Það er newspeak að tala um sparnað og lækkun þegar raunverulega er verið að hækka gjöld á fjölskyldufólk.

Svo var eitthvað verið að tala um að fólk geti keypt poka til að setja umframsorpið í. Hvað á að gera við þá poka - láta þá standa fyrir utan? Verður skemmtilegt þegar kettirnir hafa komist í þá og sorpið liggur út um allar stéttir.

Ég hef áður tala um sorpið: Sorphirða borgarinnar - aukinn óþrifnaður - þetta er heilbrigðis og umhverfismál.

Spurning um að leita gera sér ferð með sorpið í ruslatunnur borgarfulltrúa R-listans þegar tunnan er full. Ég spái því að það muni verða ansi mikið um að fólk laumist með ruslið í tunnu nágrannans á nýju ári.

pólitík umhverfið
Athugasemdir

Eggert - 22/12/04 12:13 #

"Ókeypis leikskóla segja Vinstri Grænir. Ókeypis.... ókeypis fyrir hvern ? Ekki mig, ég þarf bara að borga það sem eftir er lífs míns í stað þess að borga hærri upphæð næstu árin. Hvernig væri að redda mér fyrst leikskólaplássi áður en við ræðum um að ég þurfi ekkert að borga?"

nánar hér.

Er semsagt í lagi að láta barnafólk borga meira fyrir leikskóla, en ekki í lagi að rukka alla meira eftir því sem þeir henda meira af rusli? Nú er enginn að krefja þig um að vera samkvæmur sjálfum þér (enda má, ef glöggt er skoðað, vel merkja tvískinnungshátt Vinstri Grænna í þessum málum - ókeypis leikskólar fyrir alla - en borgaðu fyrir ruslið þitt, borgari) en finnst þér þetta ekki vera röfl yfir skid og ingenting? Hvað er kostnaðaraukningin við þetta hjá þér á ári? :)

Mér finnst hins vegar mega kalla þetta eitthvað annað, eins og aukningu á kostnaðarvitund almennings við sorphirðu (það er kallað það þegar heilbrigðisþjónusta er hækkuð í verði).

Matti Á. - 22/12/04 13:03 #

Furðuleg athugasemd, eins og þú sért að rembast við að finna á mér höggstað!

Í textanum sem þú vitnar í geri ég lítið úr því lýðskrumi að tala um ókeypis leikskóla þegar margir fá ekki leikskólapláss. Ég er semsagt að segja að það sé meira forgangsmál að redda fólki leikskólaplássi per se áður en farið er í að lækka leikskólagjöld. Ég hef aldrei sagt að ég sé á móti ókeypis leikskólum í sjálfu sér þó ég sjái ýmislegt athugavert við það.

Ég tel að leikskólavistun eigi ekki að vera skylda heldur val, en ég tel aftur á móti að fólki eigi að vera skylt að henda ruslinu sínu. Það eru ákveðin rök fyrir því að barnafólk borgi eitthvað fyrir dagvistun barna sinna, t.d. má spyrja um sanngirni þess að fólk sem kýs að vera heima með börnum sínum þurfi að borga fyrir dagvist þeirra sem kjósa að setja börnin sín á leikskóla, en það kemur þessu máli einfaldlega ekkert við.

Ég er heldur ekki að segja að ekki megi láta fjölskyldur greiða sorphirðugjald í réttu hlutfalli við það sorp sem það lætur frá sér, heldur að gagnrýna að það sé annars vegar talað um lækkun og sparnað, hins vegar að þessu muni fylgja meiri sóðaskapur og óhagræði fyrir samfélagið þegar einstaklingar aka með ruslið á gámastöðvar.

Það var borgarstjóri R-listans sem talaði um að ekki væri verið að hækka gjöld á fjölskyldufólk í fjölmiðlum um daginn. Þessi breyting á sorphirðugjöldum er hækkun á gjöldum á fjölskyldufólk, lækkun á gjöldum fyrir aðra. Enn ein skattahækkun R-listans.

en finnst þér þetta ekki vera röfl yfir skid og ingenting? Hvað er kostnaðaraukningin við þetta hjá þér á ári?:)
Kostnaðaraukning útaf skatta- og gjaldahækkunum R-listans telur eflaust einhverja tugi þúsunda á ári á mínu heimili. Það munar ekkert svo mikið um hverja hækkun fyrir sig en þetta safnast þegar saman kemur.

Allt má túlka sem tittlingaskít og vissulega á það við um flest sem skrifað er á þessa síðu, þennan pistil hugsanlega líka - en þessi athugasemd er, að mínu hógværa mati, glórulaus.

Eggert - 22/12/04 14:30 #

Jú jú, ég fletti nú ansi mikið í safninu þínu (eins og þú hefur séð) til þess að finna þessa tilvitnun - enda túlkaði ég þessa tilvitnun sem svo að þú værir að tala á móti félagslegu kerfi (samfélagið borgar allt, innheimtir það svo með sköttum) vs. frjálsu kerfi (einstaklingur greiðir sjálfur fyrir þjónustu sem hann nýtir sér).
Út frá þessari rangtúlkun minni byggði ég þessa tilefnislausu og niðurlægjandi árás á þig :)

Matti Á. - 22/12/04 14:35 #

Þó ég sé vafalítið hægra megin við miðju er ansi langt frá því að ég sé á móti samneyslu eða félagslega kerfinu eins og leggur sig - eins og þú ættir að vita!

Mér leiðist að standa í að svara fyrir skoðanir sem ég hef ekki :-)