Örvitinn

Jólin

Gærdagurinn fór í matseld að stærstum hluta. Bjó til fyllingu í hádeginu og kom kalkúnanum í ofninn um hálf eitt tvö. Slakaði aðeins á í kjölfarið.

Náði að klúðra aðeins fuglinum, var með hann á 140° á blæstri og undir og yfirhita, hefði bara átt að vera blástur. Þetta gerist þegar maður er enn að læra á eldavélina. Þetta reddaðist samt. Vorum með einfalda forrétti sem þurfti lítið að undirbúa, parma skinku og nautakjöt.

Dagurinn var frekar erfiður á þessu heimili, stelpurnar skiptust á að vera að fara á taugum af spenningi. Afar langur dagur.

Foreldrar mínir og bróðir mættu í kvöldmat, við átum og höfðum það notalegt. Opnuðum vænan haug af pökkum. Stelpurnar áttu að sjálfsögðu mest af þessu en við hin fengum líka furðulega mikið.

Svæfðum stelpurnar um ellefu og slökuðum á, Gyða las bók, ég lék mér i Half Life 2. Fékk hann semsagt í jólagjöf - já, maður fær líka dót þó maður sé kominn á fertugsaldurinn. Hékk í tölvunni til fjögur í nótt. Magnaður leikur og þrælvirkar á ferðavélinni.

Í dag höfum við svo slakað á, stelpurnar dundað sér með dótið sitt. Gyða lesið og ég leikið mér í tölvunni. Spilaði Counter Strike í dag og skemmti mér vel - er reyndar afar slakur en rifjaði upp gamla takta af og til.

Kolla er með hlaupabólu og við erum tvö heima núna, Gyða, Áróra og Inga María eru í jólaboði á Arnarnesi.

dagbók