Örvitinn

Brúna peysan mín er græn

brún peysa með hvítum röndumÞegar við vorum að fara út í gærkvöldi bað ég Gyðu um að koma niður með peysu handa mér. Hún kallaði þá og sagði að "græna peysan með hvítu röndunum" væri á snúrunni í þvottahúsinu. Ég kannaðist ekkert við að eiga græna peysu með hvítum röndum en á snúrunni var brúna peysan með hvítu röndunum.

Ég spurði Ingu Maríu og Kollu hvernig peysan væri á litin, hvorug vildi meina að hún væri brún. Frekar svört eða græn. Tóku svosem örlítið undir það þegar ég spurði hvort hún væri ekki brún - en börn samþykkja oft það sem fullorðnir segja.

Gyða fullyrðir að peysan sé græn, foreldrar mínir fullyrða að hún sé græn - örlítið út í grátt, þannig að ég verð bara að sætta mig við að brúna peysan mín er græn. Spurningin er bara hvort ég er að misskilja eitthvað fleira.

N.b. það þarf ekkert endilega að vera 100% að marka litina á myndinni, þó mér sýnist þetta vera nokkuð rétt á skjánum á ferðatölvunni. Ég sé ekki betur en að þetta sé brúnt.

Ýmislegt
Athugasemdir

Birgir Baldursson - 03/01/05 03:20 #

Hún er brún. Það er eitthvað verið að spila með þig :)

Gyða - 03/01/05 07:45 #

Litirnir á myndinni eru ekki réttir. Á myndinni er þessi peysa brún en hún er svona mosagræn í raunveruleikanum. Þú verður bara að vera í henni næst þegar þú hittir Birgir :-Þ

Kristján Atli - 03/01/05 08:21 #

Grá?

Myndin hlýtur að vera í röngum litum...

Nanna - 03/01/05 09:35 #

Þetta er bara svona með karlmenn og liti, ég hef reynslu af því - sjá hér (sjá líka kommentin, þau eru þarna þótt það standi 0).

Hr. Pez - 03/01/05 10:20 #

Ég kannast við þetta. Sjálfur á ég brúna skyrtu sem veldur nákvæmlega sömu veruleikasviptingu á fólki í kringum mig.

Matti Á. - 03/01/05 12:18 #

Grímur og Kjartan, kollegar mínir, vilja meina að peysan sé græn og að liturinn á myndinni sé ekki réttur.

Veröld mín er að hruni komin :-P

Matti Á. - 03/01/05 12:26 #

Tók þessa mynd með gemsanum rétt í þessu. Peysan er vissulega ekki jafn brún á þessari mynd og myndinni fyrir ofan.

Gyða - 03/01/05 12:48 #

að þú skulir einhverntíman efast um orð konunnar þinnar!!

Gummi Jóh - 03/01/05 12:50 #

Heimtum mynd tekna á flottu myndavélina þína í fullum gæðum í góðri birtu í kvöld. Þá fyrst skal þessi leyndardómur vera upplýstur.

Halldór E. - 03/01/05 14:17 #

Matti, nú er ekkert sem heitir nema litblindupróf.

Matti Á. - 03/01/05 15:25 #

Ég féll reyndar á litblinduprófi í Gagnfræðaskóla - það eru engar fréttir :-) Náði reyndar að sjá allar tölurnar á prófinu sem Birgir vísar á - en þurfti að rembast við að sjá töluna efst hægra megin og neðst vinstra megin.

Myndin í færslunni er tekin með Nikon vélinni í nótt, white balance stillt með hvítum pappír en lýsingin ekkert sérstök. Kroppaði og minnkaði myndina í photoshop.

Held ég verði bara að sætta mig við að peysan er græn þó ég hafi haldið annað í mörg ár.

Eru jakkafötin mín ekki alveg örugglega brún? :-P

Gummi Jóh - 03/01/05 16:14 #

þessar tvær myndir finnast mér sýna sitthvorn litinn. Litla myndin í færslunni er brún en myndin tekin á GSM símann þinn er græn og nei ég er ekki litblindur.

Matti Á. - 03/01/05 16:18 #

Það er rétt, það munar töluverðu á þessum myndum.

En ég bar peysuna saman við myndina á skjánum á ferðatölvunni í nótt og sýndist þetta vera næstum sami litur, frekar minna brúnn á skjánum ef eitthvað. Á móti kemur að það getur munað nokkru á litum eftir því hvernig skjárinn er stilltur.

Annars er þetta hin skemmtilegasta pæling :-)

skúli - 03/01/05 16:59 #

Þetta er bara aumasta efahyggja. Peysan er brún.

;)

Matti Á. - 03/01/05 17:06 #

Ég er náttúrulega kominn í þá stöðu að treysta ekki eigin skynfærum vegna utanaðkomandi gagna - en sem efahyggjumanni er mér bæði ljúft og skylt að skipta um skoðun þegar sannanir benda til annars. Hef lengi verið þeirrar skoðunar að persónuleg skynjun geti varið afar ótraust.

Spurning um að skjótast í BYKO í hádeginu á morgun og fá málningardeildina til að skera úr um þetta :-)

Ósk - 04/01/05 06:12 #

Brún í litaprufunni þarna uppi, en greinilega græn á myndinni í kommentunum. Ég held að hún sé kamelljón.

Már - 04/01/05 18:37 #

Matti, þú ert örugglega bara einn þeirra fjölmörgu sem eru örlítið rauð-græn litblindir. Grágrænn og Grábrúnn eru mjög nálægt hvorum öðrum í RGB litarúminu, og því mjög eðlilegt að ruglast aðeins á þeim ef litnæmið þarna á milli er ekki alveg 100%.