Örvitinn

Dagmamman á forsíðu DV

Kolla í sófanum þegar ég var heima með henniKolla var hjá dagmömmu í eitt ár, frá nóvember 2000 fram í nóvember 2001. Eftir að Gyða var búin með fæðingaorlof og sumarfrí í september var ég heima með Kollu í 2 mánuði. Kolla byrjaði svo hjá dagmömmu, fyrst fjóra tíma í nóvember og desember, sex tíma í janúar og febrúar og allan daginn eftir það.

Það var mjög erfitt að fá dagmömmu á þessum tíma. Við fengum lista hjá Dagvist barna og hringdum í allar dagmæður í 104 og nærliggjandi póstnúmerum, bjuggum í Álfheimum á þessum tíma. Margar dagmömmur á listanum voru hættar, aðrar að hætta eða minnka við sig og restin hafði ekki pláss fyrir fleiri börn.

Við fundum að lokum dagmömmu með laust pláss sem var rétt hjá okkur. Aðlögun gekk þokkalega en okkur leið aldrei mjög vel. Kolla var yfirleitt sæmilega kát þegar ég sótti hana, annað hvort að leika sér úti í garði eða að dunda sér á ganginum.

Þrátt fyrir það vorum við aldrei mjög ánægð. Kolla virtist ekkert hænd að dagmömmunni og þegar við rákumst á hana og dóttur hennar í Húsasmiðjunni vildi hún ekkert með þær hafa. Slík hegðun þarf þó ekki að vera óeðlileg hjá krökkum, oft finnst þeim skrítið að hitta dagmömmu eða fóstru í öðru umhverfi. Hún vildi alltaf taka á móti Kollu í útifötum og skila henni í útifötum, okkur fannst við aldrei vera velkomin inn til hennar og við værum eiginlega að troðast inn á hana, opnuðum útidyrnar og klæddum Kollu úr útifötum í sameiginlegu anddyri hússins. Ákváðum að láta hana ekki stjórna þessu.

Komumst að því stuttu áður en hættum hjá henni að Kolla var vafalaust óskráð, dagmamman lét okkur aldrei kvitta undir neina pappíra - sem hún hefði þurft að gera til að fá greitt frá borginni. Hún var því sennilega með of mörg börn en við sáum reyndar aldrei grunsamlega mörg börn hjá henni þannig að hún hefur varla verið með mikið yfir leyfilegum fjölda.

Þegar Inga María kom í heiminn og Gyða fór í fæðingarorlof létum við Kollu hætta hjá dagmömmu. Gyða var svo heima með Kollu og Ingu Maríu næsta árið. Það var óskaplegur léttir og við höfum oft fengið samviskubit síðan, ekki vegna þess að eitthvað hafi komið fyrir barnið eða illa hafi verið farið með það. Við vorum bara aldrei mjög sátt, okkur leið aldrei vel. Ef við berum þetta saman við dagmömmuna sem Inga María var hjá í nokkra mánuði, þá er ekki hægt að líkja því saman - jafnvel þó Inga María hafi stundum farið skælandi frá okkur - þá kynntumst við konunni og treystum henni. Okkur leið vel, jafnvel þó maður hafi stundum fengið í magann ef hún var skælandi, þá vissum við að hún var í góðum höndum.

Ég fékk sting í magann þegar ég sá forsíðu DV í dag. Dagmamma án leyfis. Svipt sjálfræði og passar börn í Nökkvavogi. Jamm, þetta er dagmamman sem Kolla var hjá í rúmt ár.

Reyndar var hún með leyfi þegar Kolla var hjá henni, hún missti leyfið 2002. En það er ekkert sérstaklega upplífgandi að lesa það að dagmamman sem passaði dóttur mína hafi áður verið svipt sjálfræði og á geðdeild. Vissulega felast í þessu ákveðnir fordómar - en þegar kemur að börnunum mínum afsaka ég ekki fordóma mína. Hún var með forræði yfir dóttur sinni á þessum tíma, það er ljóst - dóttir hennar hjálpaði henni oft og var iðulega úti að leika við börnin þegar við komum að sækja Kollu.

Ég er alls ekki að gefa í skyn að þessi dagmamma hafi hugsað illa um Kollu eða farið illa með hana. En okkur leið aldrei vel og í dag er óhætt að segja að við séum í uppnámi.

dagbók fjölmiðlar