Örvitinn

Heit panna

Eldaði eggjaköku handa stelpunum í hádeginu í gær, þ.e.a.s. öllum nema Gyðu því hún var í vinnunni. Týndi til afganga: kjúkling, papriku, rauðlauk, chili og fleira. voða fín Jamie Oliver panna

Diddi gaf okkur ósköp fína pönnu í jólagjöf og ég hef notað hana við eggjakökugerð síðan - byrja á því að steikja kökuna og hendi svo pönnunni í ofninn og klára, miklu þægilegra - slepp alveg við að snúa kökunni.

Ég hef tvisvar notað þessa aðferð og í bæði skiptin klikkað á smáatriði, veigamiklu smáatriði. Pannan hitnar í ofninum.

Í báðum tilvikum hef ég notað hanska þegar ég tek pönnuna úr ofninum, ég er ekki algjört fífl en svo gleymt mér mínútu síðar og tekið í skaftið. Jú, ég er algjört fífl.

Sem betur fer eru ómeðvituð viðbrögð hraðvirk og ég hef ekki brennt mig illa - ekki einu sinni fengið blöðru, bara þurft að hafa lófann undir köldu vatni í nokkrar mínútur og nota slatta af græðandi. En í gær var ég sérstaklega meðvitaður, minnugur síðasta atviks, en gerði samt sömu mistök, hvolfi disk yfir pönnuna og tók í skaftið án hanska.

Ég er örviti.

Ýmislegt