Örvitinn

Pizzugerð

Fórum í kvöldmat til Jónu Dóru, Óttars og Ásídar Birtu í kvöld. Óttar bjó til pizzur, ég fylgdist með pizzubotnagerð af áhuga enda markmið mitt í matreiðslunni að læra að gera pizzudeig (og bara almennt að baka brauð).

Þetta virtist ekki mjög flókið en kannski ekki alveg að marka þar sem Óttar er lærður bakari. Ég hef alltaf verið hræddur við brauðbakstur, held það sé þessi áhersla sem var lögð á hitastig vatnsins í heimilisfræðinni í gamla daga. Hitinn átti að vera nákvæmlega 37° eða allt færi í steik. Þetta er víst ekki svo nákvæmt, bara passa að vatnið sé ekki of heitt.

Stelpurnar hjálpuðu til við að setja álegg á og skemmtu sér vel, hrúguðu dálítið duglega þannig að það þurfti örlítið að laga eftir þær. Pizzurnar voru afar góðar og þrjár myndarlegar pizzur kláruðust á augabragði.

Nú þarf ég bara að prófa sjálfur og komast að því hvort ég ræð við að gera pizzubotna.

dagbók