Örvitinn

Pabbi, ég trúi á Gvuð og Jesús

"Pabbi, ég trúi á Gvuð og Jesús" sagði Kolla við eldhúsborðið í morgun. "Jahá", sagði ég og fletti Fréttablaðinu. "Af hverju gerir þú það?"

Hún sagði mér að Séra Bolli hefði komið í leikskólann í gær, sem þarf reyndar ekki að vera mjög nákvæm tímasetning, "í gær" getur þessvegna verið "fyrir helgi" eða "um daginn".

Ja, hún trúir Séra Bolla. Sagði mér frá því þegar þau fóru með bæn, héldu saman höndum og endurtóku eftir honum. Svo verða trúmenn sármóðgaðir útaf svona samlíkingum, fyrirgefið, í dag finnst mér þessi líking léttvæg og sanngjörn. Séra Bolli segir að Gvuð og Jesús séu til og börnunum finnst það trúlegt, sjá ekki af hverju hann ætti að ljúga. Svo halda einhverjir því fram að þetta snúist um siðfræði og menningu. Þetta er heilaþvottur að hætti Þjóðkirkjunnar.

Í bílnum á leiðinni í leikskólann ræddum við aðeins gvuðshugmyndina, hvort Gvuð væri góður. Jújú, það er hann. Ég lagði þá aðeins út frá sögunum um Nóa flóðið og Sódómu - hvort góður Gvuð gæti drepið allt þetta fólk, öll þessi börn. Kolla var með svörin á hreinu, það var bara eitthvað fólk sem hélt að Gvuð hefði gert þetta, fólk sem svo skrifaði þessar sögur - en Gvuð er góður. Fjandakornið, hún er strax komin í grænsápuna.

Ef einhverjum langar að kommenta hér og segja að þetta sé sárasaklaust og hafi engin áhrif á barnið vil ég vinsamlegast um að biðja fólk að birgja það inni - þetta hefur áhrif á barnið, a.m.k. í dag. Mér finnst alveg nóg að hafa einn tólf ára trúarnöttara á mínu heimili.

Ég skil ekki foreldra sem hafa þörf fyrir að boða börnunum sínum trú. Ég hef hingað til ekki boðað börnum mínum trúleysi - sem sumir vilja reyndar meina að sé ákveðin tegund af trúboði, þ.e.a.s. hlutleysi, það að boða ekki kristni sé í raun boðun á trúleysi, en það er bull.

Hvaða tilgangi þjónar það að kenna litlum börnum bænir - fara með þau í sunnudagaskóla, segja þeim að Gvuð vaki yfir þeim og svo framvegis? Heldur einhver að þetta auðveldi börnum að takast á við lífið? Hvað hefur fólk fyrir sér í því?

Ætli þessir sömu foreldrar fari reglulega með börnin sín á námskeið hjá einhverjum stjórnmálaflokki? Foreldrar í Sjálfstæðisflokknum með börnin sín á sunnudagsmorgnum í stjórnmálaskóla flokksins, foreldrar í Samfylkingunni í stjónrmálaskóla þess flokks og foreldrar í vinstri grænum enn einum. Finnst einhverjum sú hugmynd sjúk, lítil börn í sal að hlusta á eitthvað fólk mæra stjórnmálaleiðtoga og stjórnmálastefnur? "Davíð er góður, Össur er vondur, Davíð elskar börn, Steingrímur sparkar í hunda"

Það er eitthvað sjúkt við barnatrúboð, eitthvað verulega sjúkt.

leikskólaprestur
Athugasemdir

sirry - 01/02/05 11:29 #

Humm þori ekkert að segja um þessa umræðu. En verð samt að segja einhvað :D Svo ég segi bara góða skemmtun að fást við þetta :C)

Matti Á. - 01/02/05 13:35 #

Já ég veit, þú ferð með bænirnar með börnunum :-|

Birgir Baldursson - 01/02/05 15:31 #

Er það nú nýjasta Biblíuskýring klárkanna eftir tsunami að Guð hafi ekki sett á Nóaflóðið og lagt Sódómu í eyði? Hvað er þá orðið um poíntið í þessum sögum Gamla testamentisins, ef Guð kom allt í einu þarna hvergi nálægt? Má þá ekki með sömu rökum halda því fram að hann hafi ekki skapað heiminn, það hélt það bara eitthvað fólk. Já hey, er hann yfir höfuð til? Heldur það ekki bara eitthvað fólk?

sirry - 02/02/05 10:00 #

Ég skal biðja fyrir þér í leiðini að þér takist að takst á við þetta af þroska og opnum huga hehe :C)

Carlos - 02/02/05 10:24 #

Tólfára trúarnöttari á heimilinu, segirðu, og leikskólastelpa sem trúir Bolla og á Guð?

Kannski eru stelpurnar að prófa hversu langt þeim er óhætt að fara frá föðurhúsum (í þessu tilfelli því sem þér er hjartans mál). Börn eru alltaf að prófa hversu langt þau komast með mann - útivistartími, viðhorf, matvendni, ALLT.

Það er þér væntanlega ekki huggun (enda ekki tilgangurinn með þessu) að sonur minn ákvað að fermast borgaralega þegar hann vildi ekki ljá máls á kirkjufræðslu né fermingu þegar hann hafði aldur til þess, er hann þó prestssonur, sem átti heita barnatrú. Við studdum hann til að fara eigin leiðir. Með því fór mikil spenna úr samskiptum okkar.

Matti Á. - 02/02/05 13:26 #

Í gærkvöldi ræddu þær systur við mömmu sína og þá var Kolla alveg búin að skipta um skoðun, trúir ekki á Gvuð og telur Bolla vera kjána.

Ég veit ekki hvort barnið er bara að gera grín í/að pabba sínum :-)

Matti Á. - 02/02/05 13:35 #

En hvað er málið með að láta hóp smábarna fara með bænir - spenna greipar og endurtaka bæn sem presturinn fer með?

Hvernig í ósköpunum geta trúmenn réttlætt að slíkt gerist í opinberum leikskóla?

Þarna erum við komin langt útfyrir sögustund sem sumir vilja verja með menningarrökum (sem ég samþykki ekki).

Carlos - 02/02/05 19:02 #

Mér finnst eðlilegt að bænir, líka hermibænir séu beðnar með smábörnum í kirkju, í kirkju- eða sunnudagaskóla. En ekki í leikskóla nema í algerum undantekningartilfellum og skv. beiðni leikskólans.

Já, ég held að stelpan hafi verið að prófa hvernig pabbinn bregst við, þetta hljómar þannig.

Jón Magnús - 02/02/05 20:19 #

ein pæling... getur ekki bara fengið að sitja í tíma hjá honum Bolla og fengið að taka þetta upp hjá honum og rölt síðan og kært hann fyrir trúboð í opinberum skólum og vona að þú fáir gjafsókn. Gæti virkað þótt að ég telji það hæpið.

Carlos - 02/02/05 20:19 #

Já, til að fyrirbyggja misskilning þá sé ég ekki að neinn grundvallamunur sé á leikskóla og grunnskóla og finnst ekki að prestur eða annar fulltrúi trúfélags eigi að stunda trúboð eða áróður þar heldur. Ekki koma að skólastarfi nema í boði og á forsendum skólans.

Matti Á. - 02/02/05 20:56 #

Jón Magnús, ég held að slík athugun sé varla möguleg því framkvæmd hennar hefði óhjákvæmilega áhrif á það sem skoðað er. Með öðrum orðum, líklegast myndi trúboð minnka verulega um leið og ég mætti á staðinn :-)

Matti Á. - 02/02/05 21:03 #

Gott að heyra Carlos, ég þykist vita að fleiri frjálslyndir prestar eru sömu skoðunar.

Carlos - 02/02/05 21:44 #

Já, það erum við. Það er vandi að vera fulltrúi meirihlutans og ég geri mér grein fyrir að allt of auðvelt er að troða á réttindum annarra. Sem má ekki vera ætlun Þjóðkirkjunnar. En, það er ekki eins og hún tali með einni röddu ...

Hvað varðar tillögu Jóns Magnúsar, þá held ég ekki að þörf sé á því að grípa til "spæjaraaðgerða". Hefurðu skrifað fræðsluyfirvöldum bréf vegna þessa? Ég gat ekki greint það af bloggi þínu að þú hafir reynt þá leið. Eðlilegt er að þau skoði þessi mál.

Binni - 02/02/05 22:35 #

Sá dagur kemur að börnin okkar hætta að vera börn. Hvað ætlar þú að gera ef dóttir þín verður trúhneigð kona á fullorðinsaldri, ákveður að læra til prests og skírir, fermir, giftir og jarðar? Ætlarðu þá ekki að slaka á?

Jón Magnús - 02/02/05 23:17 #

Jú ætli það sé ekki rétt hjá þér Matti, allt í einu yrði Bolli mjög almennur í tali o.s.frv. Það myndi kannski sanna fyrir þér að hann vissi að hann væri að gera eitthvað rangt.

frelsarinn@vantru.net - 02/02/05 23:28 #

Ég held trúlausir séu allra manna sveigjanlegastir í daglegu lífi, í umgegni við trúaða vini og ættingja. Ég mæti hiklaust í skírnir, fermingar, kistulagningar, jarðafarir o.s.frv. hjá kristnum ættingjum og vinum. Það er ekkert vandamál. Læt um lönd og leið skoðanir fólks á öllum þessum goðsögnum og tek þátt eins og hægt er. Hins vegar þarf maður þola þó nokkurn pirring hjá kristnu (þjóðkirkju-)fólki sem veit að maður er trúlaus. Mörkin eru ekki þar, heldur þegar opinberstofnun byrjar að vaða yfir allt og alla á skítugum skónum. Það er einfaldlega mikil munur á einlægri trú einstaklings og óskir hans eða þegar prestar á ríkislaunum koma til að boða trú sína í opinberum skólum eða barnatímum á RÚV. Ég skil bara ekki að menn geti ekki greint þarna á milli og séð að sér. Í staðinn saltar ríkiskirkjan í sárin hjá fólki með fádæma yfirgang sem oftar en ekki virkar í andhverfu sína og skapar mikla reyði. Þið verðið að athuga að það fyrsta sem trúlaus maður sér þegar prestar byrja að vaða á börn er fjáröflun og heilaþvottur, ef ég hef séð hið illa þá er það yfirgangsprestar. Þó að prestinum finnist hann vera vinna gott starf fyrir Jesú sjá aðrir þetta í öðru ljósi. Kirkjan verður einfaldlega að fara að opna augun en ekki reyna með öllum ætti að draga að sér fé til að krukka í börnin. Einnig er til dæmis séra Sigurði Pálssyni fyrirmunað að sjá að trúofstækisbækur hans sé trúboð en ekki fræðsla. Margoft finnst prestum þeir vera bara að fræða þegar þeir eru í bullandi trúboði á stöðum sem þeir eiga ekki heima. Foreldrar geta alveg séð til þess að börnin þeirra fari í sunnudagaskólann og fái kristilegt fórnardauða uppeldi. Það er virkilega kominn tími til að menn sem tala um kærleik og vinasemd vinni þannig í verki.

Matti Á. - 02/02/05 23:30 #

"slaka á" ?

Af hverju ætti ég að slaka á? Ætli ég muni ekki haga mér svipað og með elstu stelpuna - láta þetta eiga sig svo lengi sem hún er ekki að minnast á þetta.

Matti Á. - 02/02/05 23:35 #

Hefurðu skrifað fræðsluyfirvöldum bréf vegna þessa?
Ég hef ekki gert það persónulega en Siðmennt skrifaði bréf útaf þessu máli (almennt). Ég er ekki almennilega inni í því máli en skilst að svarið hafi verið eitthvað á þann veg að þetta væri ekkert vandamál.

Jón Magnús - 03/02/05 00:37 #

Er ekki málið að þú skrifi til þeirra bréf og fáir útskýringar á þessu og þar sem þú lýsir vanþóknun á þessu? Kannski færðu eitthvað bréf til baka sem gaman væri að lesa.