Örvitinn

Nauðhemlað

Rétt áðan var ég næstum því búinn að keyra á hvítan fólksbíl sem ung kona (sýndist mér) ók inn á Seljaskóg frá Grafarseli og beint í veg fyrir mig. Ég nauðhemlaði, snarstoppaði tæpan meter frá henni og lagðist á flautuna. Hún ók í burtu eins og ekkert hefði gerst. Eftir sat ég, gáttaður.

Ég hef sem betur fer vanið mig á að gera ráð fyrir að aðrir ökumenn séu fífl. Þannig hægi ég ósjálfrátt á mér þegar bíll ekur að gatnamótum sem ég nálgast, jafnvel þó bíllinn sé við biðskyldu eða stöðvunarskyldu. Í þetta skipti var það biðskylda. Æi, þetta getur komið fyrir hvern sem er - aðrir ökumenn mega gjarnan gera ráð fyrir að ég sé fífl.

Var að koma frá leikskólanum eftir að hafa skutlað Ingu Maríu aftur, fór með hana til tannlæknis í hádeginu. Gekk ósköp vel, hún er með fínar tennur og skemmti sér vel. Fékk fullt af límmiðum og valdi svo dót handa sér og Kollu í lokin. Kolla valdi líka dót handa henni þegar hún fór fyrir mánuði. Frábær þessi barnatannlæknir, maður sér það svosem á reikningnum!

dagbók