Örvitinn

Saltkjöt, bollur og helgarmyndir

Ég eldaði ítalskar kjötbollur á bolludag. Þær voru fjandi góðar og svo var líka gaman að elda þær. Skemmtilegt að hræra þessu saman, móta bollur, steikja og svo framvegis. Stelpurnar borðuðu vel, nema Kolla reyndar, hún snerti ekki bollurnar - borðaði bara spagettí. Þýðir lítið að svekkja sig á því, sjaldgæft að þær séu allar himinlifandi með það sem maður mallar ofan í þær.

Fórum í saltkjöt og baunir til tengdó í kvöld, vorum í sama mat hjá foreldrum mínum í fyrradag. Furðulegt að hjartað í mér pumpi ennþá. Spái fáránlegri þyngdartölu í fyrramálið.

Skellti inn myndum frá síðustu helgi, ekkert merkilegt svosem - stelpurnar að troða í sig bollum og svo kvöldmaturinn hjá foreldrum mínum. Ég hef dálítið gaman af þessum myndum af Kollu [1,2] en þær væru betri frá lægra sjónarhorni og með meiri áherslu á hana. Finnst skemmtilegur contrast milli hennar og grámyglulegs umhverfisins.

Ef ég væri skynsamur væri ég löngu sofnaður.

Ýmislegt