Örvitinn

Val hinna reyklausu, Liverpool-Leverkusen

Í kvöld tekur Liverpool á móti Leverkusen í Meistardeildinni. Leikurinn verður ekki sýndur beint á Sýn, en þar fyrir utan er ég ekki með áskrift að þeirri ágætu sjónvarpsstöð. Það er því ljóst að ég fer á pöbb til að horfa á leikinn.

Samkvæmt frjálshyggjurökunum á ég val. Ég þarf ekki að sitja í reykmettuðu umhverfi, ég get tekið þá ákvörðun um að sleppa því.

En get ég það? Nei, leikurinn er ekki sýndur í reyklausu umhverfi. Liverpool stuðningsmenn þurfa að sitja í mökknum, sumir frjálsari en aðrir meðan þeir reykja ofan í reykleysingjana. Ég verð að láta mig hafa það.

Ég get valið að sleppa því að horfa á Liverpool leikinn í beinni útsendingu eða horft á hann í reykmettuðu umhverfi.

Nákvæmlega sama val hef ég um helgar þegar farið er í bæinn, ég get valið að fara með fólki og skemmta mér í reykmettuðu umhverfi eða hangið heima.

Þetta er ekkert val. Í þessu tilviki, eins og mörgum öðrum, hefur markaðurinn brugðist. Hvað gera menn þegar markaðir bregðast? Þeir setja reglur, í þessu tilviki á einfaldlega að banna reykingar á veitinga og skemmtistöðum. Þar sem það hefur verið gert virkar það og lang flestir eru sáttir, líka reykingamenn. Það er nefnilega svo merkilegt, að meira að segja reykingafólk finnur muninn.

Hvað um það, hver ætlar að koma með mér á Players í kvöld, mæta snemma og éta kvöldmat þar.

pólitík
Athugasemdir

Matti Á. - 22/02/05 12:10 #

Hvað um það, hver ætlar að koma með mér á Players í kvöld, mæta snemma og éta kvöldmat þar.
Ekki verða það Regin eða Stebbi, spurning með Badda og/eða Arnald.

Annars fer ég bara einn ef allir bregðast.

Már - 23/02/05 23:09 #

Eitt aðal einkenni markaðarins er að hann er fífl. Hann hefur 0 greind, enga sál, engan vilja.

Markaðurinn er svoldið eins og sjálfvirkur leikfangabíll sem keyrir áfram og skiptir handahófskennt um stefnu í hvert skipti sem hann klessir á eitthvað: Sniðug græja, og gaman að fylgjast með honum í smá tíma, en svo endar yfirleitt fyrr eða síðar í sjálfheldu bak við sófa og maður þarf að hjálpa honum af stað aftur.

Valdís - 24/02/05 13:08 #

Oft erum við ósammála Matti, en nú gætum við varla verið meira sammála. Ég styð þessa löggjöf heilshugar og vona að hún komist í gegn.

Matti Á. - 24/02/05 14:57 #

Aldrei hef ég skilið þegar fólk er ósammála mér :-P

Ég tók eftir því á Players að afar lítill hluti gesta reykti. Ég myndi giska á 20%, einn af sex sem sátu við borðið mitt. En það breytti því ekki að ég angaði af sígarettureyk.