Örvitinn

Fimm ára húmor

Stundum er óskaplega gaman að detta niður í fimm ára húmorinn. Í kvöld var ég að fíflast með stelpunum eftir matinn. Sátum við borðið og skiptumst á að gera kúnstir og leika þær eftir. Það þótti þeim skemmtilegt, en þegar ég hætti að geta endurtekið kúnstirnar þeirra, gat ekki klappað fyrir ofan höfuð eða tekið í eyrun á mér, ætluðu systurnar að rifna úr hlátri. Þetta gerðum við í nokkrar mínútur, þær settu sig í stellingar og spurðu pabba sinn; "geturðu þetta" og sama hvað hann reyndi, ekki tókst honum að endurtaka leikinn.

Ég get ekki beinlínis sagt að mér finnist þessi húmor skemmtilegur - en þegar stelpurnar fara í hláturskast hlýnar manni um hjartarætur og heldur leiknum áfram. Samt ekki jafn lengi og þær vilja, því krakkar fá ekki svo auðveldlega leið á því sem þeim finnst skemmtilegt. Bjargaði mér að þær þurftu að skella sér í bað fyrir svefninn.

fjölskyldan