Örvitinn

Breytingar á mínum högum

Eins og ég hef áður nefnt eru vefdagbækur oft ansi lélegar heimildir, a.m.k. þessi hér. Ég segi einfaldlega ekki frá því sem öðrum kemur ekki við :-) En þar sem ég á það til að fjalla um ýmislegt óhefðbundið halda margir að ég skrifi um allt sem mig hendir.

Svo er ekki.

Í byrjun febrúar minntist ég á merkilegt símtal, í kjölfarið fylgdu pælingar, ákvörðun og í kjölfarið stress.

Satt að segja hef ég haft þetta mál í huga þegar ég hef skrifað fjölmargar færslur hér undanfarið. Þeir sem þekkja mig hafa fengið þetta beint í æð - ef þeir hafa spurt. Aðrir hafa farið lengri leiðir.

Ég er búinn að segja upp hjá bankanum og er að fara yfir í Stefju. Var ekkert á leiðinni að hætta, hafði fengið fyrirspurnir en vísaði því frá, var þokkalega sáttur með mín mál. En þar sem Stefja hafði samband var ég tilbúin að skoða málið. Vann þarna á sínum tíma og líkaði vel, þekki marga þó fyrirtækið hafi breyst töluvert. Þekki líka verkefnin. Ekki spillir fyrir að það er alltaf fótbolti á föstudögum.

Bankinn vill halda mér til 1. maí. Ég þarf að setja nýjan starfsmann í þjónustu, sem byrjar í næsta mánuði, inn í starfið auk þess að aðstoða við flutning á mínum verkefnum. Losna hugsanlega eitthvað fyrr, en í síðasta lagi á baráttudegi verkalýðsins.

Ég var búinn að ákveða að segja öllum kollegunum frá þessu í afmælinu hans Jóa á laugardag, var ekki búinn að segja mörgum frá þar sem ekki var búið að ganga frá þessu endanlega fyrr en í síðustu viku - auk þess sem ég á ekkert sérlega auðvelt með að tilkynna svona hluti.

Það reyndist óþarfi, það vissu þetta næstum allir.

Þetta var ekki auðveld ákvörðun, það eru plúsar og mínusar. En ég hlakka til að takast á við ný verkefni.

Langsóttasta vísunin í þetta mál var vafalaust þetta lag dagsins :-)

Ég uppfærði síðuna um mig um daginn og setti þetta þar inn. Ekki miklar líkur á að fólk reki augun í þetta þar.

dagbók
Athugasemdir

Sirrý - 21/03/05 08:33 #

Til hamingju með nýja starfið. Vona að þér líki vel.