Örvitinn

Rolex

Tengdaforeldrar mínir komu færandi hendi frá New York um daginn og gáfu mér þetta forláta Rolex úr. Mér fannst það náttúrulega óskaplega höfðinglegt en illar raddir segja að úrið sé ekki ekta. Ég blæs á svoleiðis áróður :-P Þau keyptu slatta af svona varningi á markaði, úr handa allri familíunni. Kostulegt að heyra lýsingar af gaurunum sem selja úrin, pukrast með þetta og þykjast hafa áhyggjur af því að það sé verið að fylgjast með þeim, væntanlega allt partur af leiknum.

Kemur sér vel fyrir mig, átti ekki úr sem virkar og geng stoltur um með gervi-Rolex :-P Nafni minn og bekkjarbróðir í Verzló var með ekta hlunk á hendinni á sínum námsárum. Viddi leikfimikennari spurði hvort hann gengi ekki með slagsíðu þegar nafni bað hann um að passa úrið. Ég held ég myndi aldrei vilja ganga með einhverja hundraðþúsundkalla utan um úlnliðinn og þó hefur mig alltaf langað að eignast vandað úr, væntanlega er til einhver millivegur.

Var að dunda mér við myndatöku rétt áðan, stillti úrinu upp á hvítt A4 blað, setti myndavélina á þrífót og notaði sigma linsuna í macro ham. Hélt á flassinu og "bouncaði" því af loftinu, að sjálfsögðu fjarstýrt frá myndavél. Myndin er yfirlýst að hluta og það er endurkast frá lampa hjá dagsetningunni en samt er þetta sæmilegt að mínu hógværa mati. Myndin er aðeins kroppuð á hliðunum.

Þegar maður skoðar úrið í fullri upplausn, líkt og maður væri að skoða það undir smásjá, er afar augljóst að það er ekki ekta :-)

dagbók myndir