Örvitinn

Garðvinna og grill

Tókum smá skurk í garðinum í dag, leigði hekkklippur* í Byko og svo snyrti ég tré fyrir framan og aftan húsið. Fór svo með fullan bíl af garðúrgangi í Sorpu - sá þar að fleiri en ég fengu sömu hugmynd í dag, þar var allt troðfullt. Annars þótti Gyðu það merkilegast við þennan garðvinnudag að ég tók engar myndir!

Í dag lagaði ég einnig læsinguna á útidyrahurðinni. Keypti WD-40 í Byko til að setja á klippurnar og setti í læsinguna fyrst ég átti það til. Meira þurfti ekki, höfum lifað með hálf ónýtri útidyrahurð í þrjú ár og svo tók þrjár mínútur að laga það.

Grillaði lambalæri í kvöld, tróð hvítlauk og rósmarín í lærið og hafði kartöflublöndu með (venjulegar kartöflur, sætar kartöflur, hvítlaukur, laukur, rauðlaukur, sellerí, rósmarín - allt skorið niður og sett í ofnskúffu, hellingur af ólívu olíu). Afar gott, ég át of mikið. Grillmatur er ekki að virka fyrir línurnar.

Búinn að glápa á eina DVD mynd á kvöldi síðustu fjögur kvöld, ekki fyrr en í kvöld sem sjónvarpsdagskráin var þolanleg. Þrjár af myndunum gengu út á að góðu gæjarnir murkuðu lífið úr vondum gæjum af fullkomnum hefndarhug. Merkilegt hvað áhorfendur geta skemmt sér við að horfa á illmenni myrt!

*Þrjú k í röð, helvíti flott

dagbók