Örvitinn

Síðasti dagurinn

Jæja, síðasti dagurinn í bankanum genginn í garð. Tók til í gær, fór heim með persónulegar eigur og í endurvinnsluna með plastflöskur.

Var með stóran svartan plastpoka fullan af hálfslíters gosflöskum. Taldi flöskurnar áður en ég fór í gærkvöldi, þær voru nákvæmlega hundrað. Magnað! Eða hvað, 100 er bara tala eins og hver önnur, auk þess voru ellefu flöskur til viðbótar í öðrum poka 111, sem er líka dálítið mögnuð tala, eða hvað, 111 er bara tala eins og hver önnur. Fólk gerir stundum of mikið úr tölum.

Ætlaði í klippingu í dag en fékk ekki tíma í Mjódd þó þar séu tvær stofur. Verð þá bara að vera óklipptur dálítið lengur, gerir svosem ekki mikið til.

Er að fara út á lífið í kvöld, út að borða og gvuðlasta með gvuðleysingjum, það er skemmtilegur hópur get ég sagt ykkur. Líklegast verð ég eitthvað í bænum fram á nótt.

Á ég að kíkja í Stefjubolta þó þetta sé síðasti dagurinn í bankanum? Veit ekki, kannski sleppi ég því í dag og fer út að borða með kollegunum. Þeir eru reyndar fáir á ferli akkúrat eins og er.

Verð símalaus um helgina og líklega eitthvað fram í næstu viku. Þarf að skila símanum sem ég fékk í bankanum. Held þó sama númerinu, enda færði ég bara mitt númer til - færi það til baka. Fæ svo síma hjá nýjum vinnuveitanda, vonandi fljótlega. Annars neyðist ég til að kaupa mér nýjan 6230. Já, ég tek minniskortið úr áður en ég skila gemsanum.

dagbók