Örvitinn

Hvað meinar Jón Gnarr?

Jón Gnarr skrifar pistil í Fréttablaðið í dag. Í þetta skiptið minnist hann ekkert á Gvuð þannig að ég ætti ekki að kvarta. En ég skil ekki alveg pistil dagsins, hvað er maðurinn eiginlega að meina?

Gefur grínistanum orðið:

GÁFUR
Ég er orðinn svo þreyttur á gáfnadýrkun. Ef einhver er gáfaður þá er honum hampað og fólk lítur upp til viðkomandi og fyllist einhverri lotningu þótt hann hafi ekki gert neitt sérstakt fyrir neinn. Í viðtölum segir fólk gáfulega hluti. Umræður eru gáfulegar þar sem menn keppast meira um að vera gáfaðir en að segja eitthvað sem skiptir einhverju raunverulegu máli. Og oft er lygin ekki langt undan. Hvað er svona svakalega merkilegt við gáfað fólk? Af hverju er það merkilegra en annað fólk?

MÉR FINNST það álíka fánýtt að dásama gáfur eins og að dásama líkamsburði eða útlit. Greindarvísitala segir álíka mikið um mann og typpastærð. Fallegt andlit er ekki það sama og góð manneskja. Sá sem byggir líf sitt á gáfum fattar einn daginn að hann býr í grafhýsi. Maður skilur ekki börnin sín, maka sinn, vini og fjölskyldu með gáfunum einum. Maður verður að nota hjartað.

MÉR FINNST þeir sem eru uppteknir af því að vera gáfaðir oft eins og þeir séu að hluta til dánir. Þeir brosa sjaldan og hlæja aldrei. Ég vorkenni þeim. Ég held að þeir séu hræddir því þeir þekkja ekki visku hjartans og kunna ekki neitt í samskiptum. Mér finnst þeir vera að missa af inntaki lífsins, sem er ekki að skilja heldur að njóta. Til hvers að skilja eitthvað ef maður hefur ekki gaman af því?

GÁFUR eru verkfæri, ekkert meira. Þær eru eins og byssa, hvorki betri né verri en sá sem notar þær. Og gáfur eru líka oft kuldalegar og hafa verið notaðar til hræðilegra hluta. Aldrei verða eins miklar tækniframfarir og í stríðum.

KÆRLEIKURINN er gáfaður í eðli sínu. Gáfur eru ekki kærleiksríkar í sínu eðli, heldur eigingjarnar og oft hræddar. Heilinn er tilfinningalaus. Kærleikurinn hefur skilning á hinum duldu leyndardómum lífsins. Gáfur geta aldrei skilið hann. Þess vegna vinna gáfurnar best ef þeim er stjórnað af kærleikanum.

GÁFUR ERU EKKI LYKILLINN að hamingjunni. Það er enginn sannleikur í gáfum, heldur í fólki með gott hjartalag. Ég held að okkur myndi líða miklu betur ef við hættum þessum gáfurembingi og reyndum frekar að vera almennileg við náunga okkar og ekki gáfaðari en hann.

Ég get ekki gert að því, en mér dettur helst í hug að Jón Gnarr sé komin í rökþrot í einhverju máli og farinn í fýlu út í þá sem leiðrétta rangfærslur hans. Líkt og smábarn skælir hann, "þú ert ekkert merkilegri en ég þó þú hafir rétt fyrir þér, þú ert bara leiðindapúki". Ég get ekki skilið þetta öðruvísi.

Síðan hvenær hafa gáfur og kærleikur verið andstæður, er hann að segja að Jesús (sem eflaust var ekki til) hafi verið vitlaus?

Ýmislegt
Athugasemdir

Jón Magnús - 19/05/05 12:44 #

Fyrir utan allar hóst heimskulegu alhæfingarnar þá finnst mér alhæfingin "Gáfað fólk hlær aldrei né brosir" einstaklega vitlaus :)

Ef ég væri Jón Gnarr þá myndi ég taka hausinn minn af grillinu og fara snúa mér að einhverju öðru.

Pulla - 19/05/05 13:22 #

Ég hef aldrei séð Jón Gnarr brosa eða hlæja. Yfirleitt er hann með eymdarsvip. En ég trúi því ekki að það sé vegna þess að hann sé svona þjakaður af gáfum.

Þórdís - 19/05/05 14:08 #

Ég hló næstumþví upphátt að þessum hörmungarskrifum aftan á Fréttablaðinu því um daginn rakst ég á umræddan Jón í matvöruverslun ásamt konunni sinni og þau voru bæði svo óstjórnlega fúl á svipinn að mér fannst það beinlínis listrænt að par gæti verið svona samhljóma í að vera morkið á svipinn.

Matti Á. - 20/05/05 12:22 #

Þrátt fyrir að ég sé ósköp vitlaus (og fúll!) þykir mér stundum óskaplega gaman að umgangast gáfað fólk.

En ég er náttúrulega nörd :-)