Örvitinn

Bænaruglið afhjúpað

Fjölmiðlar hafa undanfarið vitnað í rannsóknir sem sýna eiga fram á áhrifamátt bænarinnar. Eins og fjölmiðla á Íslandi er vona og vísa nennti enginn þeirra að fjalla um málið á gagnrýnan máta, þeir tóku einfaldlega orð einhverrar kerlingar sem var að útskrifast úr félagsfræði í HÍ trúanleg. Þeir hefðu betur sleppt því, það stendur ekki steinn yfir steini í því sem haft hefur verið eftir henni í fjölmiðlum.

Grein dagsins á Vantrú eftir Óla Gneista og fjallar um þetta mál og bendir á mótrökin. Mæli með því að þið lesið hana. Styttri útgáfa af greinni er í mogganum í dag, þeir voru ekkert að flýta sér að birta hana þó þeir hafi verið duglegir að fjalla um hina hlið málsins, meira að segja í leiðara.

Guðfræðinemar og guðfræðingar hefðu gott af því að kynna sér þetta mál. Það er beinlínis sorglegt að fylgjast með þessu liði gleypa við hvaða bulli sem er vegna þess að það passar inn í ævintýraveröldina sem þau lifa í.

Þetta fíaskó sýnir líka vel hversu gagnrýnislausir íslenskir fjölmiðlar eru. Þeir eru algjörlega ófærir að fjalla um svona mál, enda ekki siður íslenskra fjölmiðlamanna að spyrja krítískra spurninga nema þegar málið snertir þá persónulega eða tengist pólitískum skoðunum fréttamanns. Það er ótrúlega algengt að loddarar fái að auglýsa hindurvitni og þvaður í formi frétta eða viðtals í íslenskum fjölmiðlum.

kristni