Örvitinn

Umferðarkvabb

Þegar ég ók á Reykjanes í gær varð ég enn og aftur var við það hverslags fávitar íslenskir ökumenn eru upp til hópa.

Á leiðinni úteftir var meðal annars gaur á Wolfswagen jeppa sem ók þrjá metra fyrir aftan mig góða stund þar sem ég dólaði á hundrað kílómetra hraða. Þessum andskota dauðlá á að komast fram úr mér og tókst það loks þegar vegurinn tvöfaldaðist. Fimm hundruð metrum síðar beygði hann til vinstri áleiðis til Grindavíkur.

Á bakaleiðinni var ég svo enn og aftur að "dóla mér" á hundrað kílómetra hraða þegar fáviti á Volvo kom aftan að mér og blikkaði! Er ekki í lagi með ykkur, átti ég að víkja út í kant svo einhver aumingi kæmist aðeins fyrr í gröfina? Hann komst að lokum fram úr mér og ók svo 10-20 km hraðar en ég á leiðinni til borgarinnar. Eflaust verið 3-4 mínútum á undan mér í Hafnafjörðinn.

Ég ætla að biðja ykkur, þessa heilalausu hálfvita sem haldið að þið eigið þjóðvegina og hafið heilagan rétt til þess að keyra þar eins og ykkur listir, að drullast til að keyra útaf og stúta ykkur sem allra fyrst áður en þið kálið einhverjum öðrum.

Ef einhver ætlar að stinga upp á að ég "hleypi þessu liði framúr" legg ég til að þeir hoppi upp í rassagatið á sér. Ég, ólíkt mörgum öðrum ökumönnum, gef aldrei í þegar menn reyna að taka fram úr mér, stíg jafnvel létt á bremsuna svo framúrakstur gangi vel. En ég neita að aka út í kant á Reykjanesbraut þegar ég keyri þar á 100 svo einhverjir slefandi getulausir aumingjar komist fram úr.

Takk fyrir.

kvabb
Athugasemdir

Tryggvi R. Jónsson - 13/06/05 13:42 #

Ég vil taka það sérstaklega fram að ég var ekki að keyra á Reykjanesi í gær ;) Ég myndi samt ekki hika við að blikka á þig ef þú værir að þvælast yfir á þann vegarhelming sem ég ætlaði að nota til framúraksturs, t.d ef þú værir að keyra utanbæjar með aftanívagn og þ.a.l. með 80km/klst löglegan hámarkshraða en ekki 90km/klst eins og ég. Ef ökumaðurinn sem er verið að aka fram úr er að þvælast mikið yfir miðlínu þá get ég ekki treyst því að hann sé meðvitaður um það sem er að gerast í kringum hann og því ekki mörg úrræði til að vekja athygli hans svo ég fái hann e.t.v. ekki í hliðina á mér þegar ég er á öfugum vegarhelmingi.

Ég veit reyndar ekki hvar þetta var en sumsstaðar á leiðinni er vegöxl sem stærri ökutæki geta (geta en ekki þurfa) notað til að hleypa ökutækjum með aðrar hraðatakmarkanir fram úr sér svo minni hætta skapist. Hvort að þessi ákveðni ökumaður var að krefjast þess af þér veit ég ekki en ef svo er væri það mjög ósanngjörn og óraunhæf krafa. Ég sé enga ástæðu til að verja þennan einstakling þó við keyrum á sömu bíltegund, ef hann var að frekjast þá var hann bara að frekjast ;)

Mér finnst hins vegar eins og þér ágætt að slá aðeins af, tipla létt á bremsuna (tekur líka skriðstillið af) svo bremsuljósin kvikni í smástund og gefa stefnuljós út í kant til að gefa ökumanninum sem ég ætla að hleypa fram úr mér til kynna að ég sé meðvitaður um það sem hann ætlar að gera.

Svo er umferðaröryggispæling sem ég er persónulega mjög hrifinn af og kallast defensive driving og hér og samkvæmt þeim skóla myndi hið rétta í stöðunni vera að hleypa þessu liði fram úr sér og halda því sem lengst í burtu frá sér, bílnum sínum og fjölskyldu sinni. Ég vil helst halda "fávitum" "aumingjum" "heilalausum hálfvitum" og "getulausum aumingjum" sem lengst í burtu frá mér í umferðinni og ef þeir vilja endilega vera nálægt mér reyni ég að lágmarka þann tíma sem þeir eru þar ;)

Svo er náttúrulega ágætt að rifja upp 4. gr umferðarlaga (50/1987): Vegfarandi skal sýna tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum, og þannig að eigi trufli eða tefji umferð að óþörfu. Hann skal og sýna þeim, sem búa eða staddir eru við veg, tillitssemi. Því miður þá forgerir fólk ekki þessum rétti sínum þó það sé að brjóta lögin sjálft. Íslenskir ökumenn virðast upp til hópa ekki fara eftir þessu né öðru úr þessum ágætu lögum heldur hafa þróað með sér einhverja stökkbreytta útgáfu af frumskógarlögmálunum.

Matti - 13/06/05 14:21 #

Ég keyri ekki út í kant á Reykjanesbraut á 100km hraða minnugur banaslyss sem varð við slíkar aðstæður fyrir stuttu.

Þegar menn fá til þess færi og reyna að taka fram úr mér hleypi ég þeim, ekki fyrr!

Þetta væri varla merkileg kvabbfærsla ef ekki væri notast við uppskrúfað orðfæri til að lýsa því sem kvabbið beinist gegn ;-)

Tryggvi R. Jónsson - 13/06/05 14:39 #

Ó nei ;) kvabb er ekki kvabb nema kryddað sé!

Ég ætlaði heldur ekki að mæla með því að þú færir út á vegöxlina, átt ekkert erindi þangað. Tja, ég geri ráð fyrir að þú hafir ekki verið á vörubíl ;)

Var þetta banaslys ekki þannig að bíll var kyrrstæður (bilaður eða eitthvað slíkt) og það var einhver að reyna að komast fram úr hægra megin (s.s. út á öxlina)? Það er náttúrulega ætlast til þess að þeir sem á annað borð eru að fara út á öxlina hafi óhindrað útsýni nokkuð langt fram á veginn.

Mér finnst þessi vegöxl annars alveg ferlega asnalegt fyrirbæri og lélegur plástur þangað til allt verður tvöfalt. Þá byrjar nú ofsaaksturinn fyrir alvöru!

Snæbjörn - 13/06/05 23:58 #

Þoli ekki heldur svona vitleysinga sem aka á hundrað kílómetra hraða uppi í rassgatinu á mér. Langar yfirleitt mest til að snarhemla, sem ég myndi líka gera ef mér væri ekki svona andskoti annt um hálsinn og bakið á mér.