Örvitinn

Þreyta

Sváfum heldur betur frameftir í morgun. Ég hrökk upp um hálf níu, Inga María steinsvaf við hliðina á mér, svaf svo fast að ég lagði hönd á magann á henni til að finna hana anda! Kolla steinsvaf í sínu rúmi, rumskaði ekki þegar ég fór inn til hennar og reyndi að vekja hana blíðlega. Inga María svaf illa í nótt, hefur verið hóstandi síðustu daga var slæm í gærkvöldi og nótt.

Ég leyfði stelpunum að sofa til tíu (ok, ok - ég kúrði líka til áfram).

Vorum því ansi seint á ferðinni í leikskólann. Fór þvínæst með uppþvottavélina í viðgerð í Ormsson, pabbi hjálpaði mér að bera hana út í bíl í gærkvöldi. Uppþvottavélin er búin að vera biluð í ansi marga mánuði, eflaust hálft ár. Við erum alveg að vera vitlaus á uppvaskinu. Þetta er endalaust verkefni, maður er ekki fyrr búinn að eyða hálftíma í uppvask en nýr stafli bætist við og bíður þrifs. Óþolandi.

Ég mætti til vinnu um hálf tólf. Ekki alveg til fyrirmyndar en vegur ágætlega upp á móti því að ég fór heim hálf eitt um nóttina síðast.

dagbók