Örvitinn

Veðurfóbía

Veðrið í Reykjavík ku sökka. Það eru tæplega fréttir, það er ástæða fyrir því að allir fríka út þegar það kemur gott veður, það gerist nefnilega svo sjaldan. Ég er enn á því að á Íslandi eigi að taka upp almenna frídaga þegar veður fer yfir ákveðinn gæðastandard. Veðurstofan gæti blásið í almannavarnaflautur þegar stefnir í rjómablíðu og þá væri öllu lokað um leið (nema náttúrulega kaffihúsum, sundlaugum, verslunum - æi, þið vitið, allt opið sem ég nenni að heimsækja í góðu veðri :-) ) Í staðin mætti fella niður alla kristilegu fimmtudagsfrídagana.

En það er stór hópur fólks sem er afskaplega viðkvæmur fyrir regndropum. Það er auðvelt að þekkja þetta fólk, það t.d. boðar forföll á fótboltaæfingar ef það er dökkskýjað. Síðasta fimmtudag var hundleiðinlegt veður en ég dreif mig samt í fótbolta á túninu fyrir neðan Kópavogshæli. Helvíti margir búnir að melda sig en viti menn, fimm eða sex létu ekki sjá sig í rigningunni. Einn sagði fyrirfram að það væru 50/50 líkur á mætingu, ég afboðaði hann strax í huganum enda orðið skýjað. Svo var ekkert að veðrinu, við vorum níu sem spiluðum í einn og hálfan tíma, ég í stuttbuxum. Einhver rigning, dálítið rok - ekkert sem kom í veg fyrir að hægt væri að hamast í fótbolta og hafa gaman að.

Það er dálítið furðulegt hvað fólk sem er alið upp á Íslandi er viðkvæmt fyrir veðri. Við ættum að vera farin að venjast þessu.

Annars vona ég að veður skáni, mér leiðist þetta veður! Nenni t.d. ekki að hjóla í vinnuna nema það sé sól og logn :-) Í kvöld fer ég aftur á móti í fótbolta, jafnvel þó það verði rok og rigning.

Ýmislegt
Athugasemdir

Matti - 13/07/05 15:15 #

Þess má geta að það var frábært veður til að spila fótbolta í gærkvöldi; skýjað, lítill vindur og temmilega hlýtt. Mætingin var þokkaleg, vorum þrettán eða fimmtán.