Örvitinn

Hárgreiðsla

þetta er ég, agalega fínt greiddurÉg var með svona hárgreiðslu frá því ég var svona átta ára til tólf ára aldurs. Reyndar var greiðslan ýktari en þetta, sléttari og meira til hliðar.

Ég rölti alltaf til rakara í Túnunum í Garðabæ. Það var rakarastofa þar, einnig fiskibúð og eitthvað fleira. Fékk alltaf nákvæmlega sömu klippinguna hjá rakara sem var kominn til ára sinna, greiddi hárið vel til hliðar. Ég held ég hafi verið tólf ára þegar mamma fór með mig á hárgreiðslustofu á Stekkjaflöt og lét klippa mig almennilega, bjargaði mér fyrir horn!

Greiddi mér í kvöld þegar stelpurnar voru að bursta tennurnar, Gyðu leist ekkert á þetta, ruglaði strax í hárinu á mér. Skil ekki af hverju :-) Ég greiddi mér aftur fyrir myndatöku. Óskaplega notalegt að renna burstanum yfir hárið, draga það til hliðar. Annars greiði ég mér aldrei, hræri í hárinu á mér með höndunum eftir sturtu eða er með það allt út í loftið á morgnana. Þegar ég spái í því, þá er ég eflaust með hárið í algjöru rugli megnið af tímanum, standandi hingað og þangað út í loftið, með sof í hárinu eins og það var á tímabili kallað á mínu heimili. Þyrfti að nota húfu flesta daga.

Ætla að láta snoða mig næst, eða a.m.k. fá broddaklippingu. Er ekki málið að gera það meðan maður hefur ennþá eitthvað hár.

Glöggir lesendur sjá að ég raka mig helst ekki nema eitthvað tilefni sé til þess. Síðasta tilefni var brúðkaupið fyrir viku síðan, ekkert tilefni núna, ég er einn heima. Litlu stelpurnar sofandi, þær stóru í bænum, í röð fyrir utan bókabúð að bíða eftir Harry Potter.

Ýmislegt