Örvitinn

Bara dæmigerður sunnudagur

Ásdís Birta var í pössun hjá okkur í dag. Höfðum svosem ekki mikið fyrir henni, hún var ósköp kát og hress. Ég rifjaði þó upp hve þakklátur ég er að eiga ekki lengur börn á bleyju, kúkableyjur eru ekki minn tebolli í dag.

lasagnaÉg eldaði lasagna í kvöld. Eldamennskan gekk ekki alveg átakalaust fyrir sig, náði að skera mig hressilega á vísifingri vinstri handar þannig að fossblæddi. Ákaflega klaufalegt eins og fyrri daginn. Stundum held ég að ég hljóti að vera snillingur í einhverju miðað við klaufaganginn, þarf bara að finna sérgáfu mína.

Lasagnað heppnaðist vel eins og ætíð og ég held ég hafi bara myndast þokkalega við matreiðsluna! Bakaði einnig foccica brauð með hvítlauksolíu og ferskri basiliku, stórgott. Svona leit þetta út á disk.

Á morgun fer ég að vinna aftur eftir sumarfrí. Held það verði ágætt, er líka viss um að ég hafði rosalega gott af því að taka mér frí.

dagbók