Örvitinn

Mótmælendavæl

Þetta væl útaf eftirliti með mótmælendum er komið út yfir allan þjófabálk.

Hvað hefur gerst? Hópur mótmælenda fór á hálendið og fékk að vera í friði. Mótmælendur hófu ólöglegar aðgerðir, frömdu skemmdarverk, ollu fjárhagstjóni og lögreglan skarst í leikinn. Mótmælendur voru færðir til yfirheyrslu og sleppt í kjölfarið.

Mótmælendur lýsa því yfir ítrekað að þeir séu ekki hættir og standa við þær yfirlýsingar með frekari aðgerðum. Lögreglan skerst aftur í leikinn, mótmælendum er sleppt að lokinni yfirheyrslu. Lögreglan hefur eftirlit með þeim í kjölfarið.

Hver er skandallinn? Tal um fasisma er, að mínu hógværa mati, fáránlegt. Hefur einhver mótmælandi gist fangageymslu næturlangt? Hefur einhver verið barinn? Hefur einhver orðið fyrir ofsóknum? Nei. Lögreglan hefur haft eftirlit með þeim eftir að mótmælendur lýstu því yfir að von væri á frekari (ólöglegum) aðgerðum. Lögreglan stoppar erlenda mótmælendur á Laugaveginum og vill fá að skoða í töskur þeirra, fólk missir vatn í móðursýki útaf "fasisma og lögregluríki". Tveimur kvöldum síðar snyrta mótmælendur úr sama hópi miðbæinn með spreybrúsum. Fasismi?.

Mér finnst hneikslun fólks útaf "meðferðinni" á mótmælendum jaðra við móðursýki. Auðvitað eru þessir mótmælendur svo alsaklausir af því að valda milljónatjóni á jarðstreng í námunda við tjaldbúðir þeirra. Þeir skemma nefnilega ekki jarðstrengi sem ekki tengjast virkjun við Kárahnjúka eða álveri að sögn talsmanns þeirra. Hvaða hugmynd haldið þið að þeir hafi haft um tilgang þessa jarðstrengs, ég hefði dregið þá ályktun að hann væri vegna álvers. Auðvitað hef ég ekkert fyrir mér í þessu annað en að þetta sé áhugaverð tilviljun og ekki er hægt að ásaka þetta fólk um þann verknað án sannana. En það hefur lítið verið rætt um þessi skemmdarverk í umræðunni um þessi mál.

Ég get ekki séð að Það hafi nokkuð merkilegt gerst. Fólk fékk að mótmæla óáreitt, þegar það braut lög skarst lögreglan í leikinn. Þegar það gerði það ítrekað og stórfelld skemmdarverk voru framin í næsta nágrenni var eftirlit aukið. Þetta minnir mig á börn sem eru staðin að verki við að gera eitthvað sem ekki má, þau fara að væla útaf einhverju allt öðru, verða skyndilega aum í hendinni og þurfa huggun. Það er vont að vera ekki stikkfrí.

Hvað er það sem ég ekki sé? Ætli ég sé bara svona rosalegur fasisti.

pólitík
Athugasemdir

Gunnar - 16/08/05 16:48 #

Já, það hefur mótmælandi gist fangageymslur næturlangt. Jú, það hefur einn maður slasast á lögreglustöðinni í Reykjavík, hvort það var lögguofbeldi eða ekki veit ég ekkert um. Ég kalla það ofsóknir að elta fólk og stoppa endurtekið þegar það er á leið frá staðnum sem það hefur verið að mótmæla á.

Fólk er saklaust þar til sekt þess er sönnuð. Og á meðan verktakafyrirtækin fyrir austan kæra ekki þá er þetta fólk saklaust fyrir lögunum, það er svo einfalt.

En mér finnst sjálfum forvitnilegt afhverju þau kæra ekki.

Þér finnst semsagt eðlilegt að stoppa fólk á Laugaveginum til að leita í töskum þeirra af því að það var að mótmæla á Austurlandi nokkrum dögum áður? Og hefði þá lögreglan mátt gera spreybrúsa upptæka ef fólkið hefði haft slíka? En hengilása? Bönd? Efnisstranga sem hægt væri að skrifa á? Hvar eru mörkin?

Og Matti, þú ert margt en hógværan myndi ég seint telja þig :)

Matti - 16/08/05 16:51 #

Já, það hefur mótmælandi gist fangageymslur næturlangt.

Hvert var tilefnið? Þetta?

Ég kalla það ofsóknir að elta fólk og stoppa endurtekið þegar það er á leið frá staðnum sem það hefur verið að mótmæla á.

Ég kalla það ekki ofsóknir þegar fólk hefur lýst því yfir að það ætli að halda áfram aðgerðum.

á meðan verktakafyrirtækin fyrir austan kæra ekki þá er þetta fólk saklaust fyrir lögunum

Ertu viss? Gott væri að fá álit löglærða á þessu. Annars kærði Impreglio mótmælendur fyrir eignarspjöll.

Binni - 16/08/05 20:00 #

Ekki er óalgengt að ölvaðir menn með ólæti gisti næturlangt í Hverfisteini.

Gunnar - 16/08/05 20:26 #

Ég er sammála að gott væri að fá álit löglærðra á réttarstöðu fólks sem ekki hefur verið kært, ég verð afskaplega hissa ef það fólk heitir ekki saklaust en þetta er ekki mitt sérsvið.

En þú svaraðir ekki því sem mér finnst mesta áhyggjuefnið í framgangi lögreglunnar, ég hefði mjög gaman af að vita þína skoðun á þessu:

"Þér finnst semsagt eðlilegt að stoppa fólk á Laugaveginum til að leita í töskum þeirra af því að það var að mótmæla á Austurlandi nokkrum dögum áður? Og hefði þá lögreglan mátt gera spreybrúsa upptæka ef fólkið hefði haft slíka? En hengilása? Bönd? Efnisstranga sem hægt væri að skrifa á? Hvar eru mörkin?"

Ég hef semsagt af því stórar áhyggjur ef það fer að teljast eðlilegt að lögreglan stöðvi fólk á almannafæri og leiti í pjönkum þess af því að hún óttast að viðkomandi fari að mótmæla (nú eða skemma, það skiptir í raun ekki máli).

Og að það að vera með einhverja hluti í fórum sínum verði talið merki um ásetning til að nota viðkomandi hluti ólöglega eða á einhverja vegu sem ekki yfirvöld eru ósammála.

Matti - 16/08/05 21:25 #

Ég er sammála að gott væri að fá álit löglærðra á réttarstöðu fólks sem ekki hefur verið kært, ég verð afskaplega hissa ef það fólk heitir ekki saklaust en þetta er ekki mitt sérsvið.

Ég er reyndar nokkuð viss um að fólk telst saklaust þar til það hefur verið dæmt af dómstólum. En spurningin er hvort yfirvöld geta höfðað mál eða haft eftirlit með fólki sem ekki hefur verið kært. Ég er nokkuð viss um að svo er. Það þarf t.d. enginn að kæra mig ef ég myrði einhvern (svo öfgakennt dæmi sé tekið). Það sama gildir eflaust í öðrum tilvikum. En í þessu máli er þetta í raun aukaatriði þar sem Impreglio hefur kært þessa aðila fyrir skemmdarverk.

Mótmælendurnir við Kárahnjúka eru sekir um að hafa framið skemmdaverk, um það er ekki deilt, jafnvel þó enginn kæri. Þeir hafa ekki verið dæmdir, en þeir frömdu verknaðina og hreykja sér af því.

Ég hef semsagt af því stórar áhyggjur ef það fer að teljast eðlilegt að lögreglan stöðvi fólk á almannafæri og leiti í pjönkum þess af því að hún óttast að viðkomandi fari að mótmæla (nú eða skemma, það skiptir í raun ekki máli).

Ég hef ekki stórar áhyggjur af því enda ekki séð að þetta sé stórt vandamál hér á landi. Við höfum eitt tilvik, þar sem erlendir mótmælendur voru stöðvaðir og spurt var hvort leita mætti í töskum þeirra. Við höfum þeirra frásögn af atburðinum og ekkert annað. Ég hef ekki heyrt marga lýsa yfir áhyggjum af því þegar leitað er í bifreiðum góðkunningja fíkniefnalögreglunnar svo dæmi sé tekið. Ég hef alltaf viljað takmarka rétt lögreglunnar til slíks. Einnig finnst mér óeðlilegt að lögreglan geti stöðvað umferð og neytt ökumenn til að sanna sakleysi sitt af því að vera undir áhrifum áfengis.

Og að það að vera með einhverja hluti í fórum sínum verði talið merki um ásetning til að nota viðkomandi hluti ólöglega eða á einhverja vegu sem ekki yfirvöld eru

Ég spyr bara hreint út, má lögreglan að þínu mati stöðva mótmælendur þegar þeir ganga á rétt annarra? Hafa mótmælendur ótakmarkaðan rétt til athafna? Ég myndi satt að segja telja fullkomlega réttlætanlegt að fjarlægja spreybrúsa úr fórum mótmælenda sem hafa framið skemmdaverk og hótað að fremja fleiri.

Þessir aðilar frömdu skemmdarverk og lýstu því yfir að þeir ætluð að gera það aftur. Á hvaða hátt hefur verið gengið á rétt þeirra? Hefur það verið gert á svipaðan hátt og þeir hafa gengið á rétt annarra? Ég held ekki.

Mér þykir þetta enn óskaplegt væl. Lögreglan hefur haft eftirlit með þessu fólki eftir að það framdi lögbrot og hótaði að fremja fleiri.

Allt tal um að hér sé lögregluríki og fasismi er út í hött. Fólkið er frjálst ferða sinna.

En það sem er kannski verst í þessu máli er hvað þetta lið er lélegir mótmælendur. Þeir hafa ekki gert nokkurn skapaðan hlut málstað sínum til framdráttar, eiginlega þvert á móti, þeir hafa gert ógagn.

Ég er ekki að mælast til þess að lögreglan fái lausari taum, ég er fyrst og fremst að benda á að umkvartanir mótmælenda við Kárahnjúka snúast að mínu mati um tittlingaskít. Þetta er óttalegt væl.

Gunnar - 18/08/05 02:15 #

Finnst þetta viðeigandi í þessa umræðu:

"Við sem staðið höfum að mótmælum höfum mætt aðgerðum af hálfu íslensku lögreglunnar sem ekki eiga neitt skylt við lýðræðislegt réttarríki byggt á virðingu fyrir mannréttindum. Við höfum sætt svipaðri meðferð og værum við hryðjuverkamenn. Þannig höfum við mörg okkar verið lögð í einelti af einkennisklæddum og óeinkennisklæddum lögregluþjónum allt upp í 24 klukkustundir á sólarhring. Lögreglan hefur brotist inn í húsakynni okkar án húsleitarheimildar undir því yfirskyni að birta bréf Útlendingastofnunar þar sem lögreglumenn lögðu hendur á þau okkar sem voru heima og niðurlægðu okkur. Þá hefur verið lagt hald á bifreiðar okkar án heimildar. Sum okkar hafa mátt þola handtökur fyrir engar sakir af óeinkennisklæddum lögregluþjónum og verið færð í fangageymslur lögreglunnar þar sem við höfum mátt þola nauðungarvist án þess að fá vott eða þurrt. Með þessu hefur íslenska lögreglan með valdhroka sínum margbrotið grunvallarmannréttindi okkar svo sem réttin til friðhelgi heimilis og einkalífs. Lögð verður fram kæra til Ríkissaksóknara þar sem farið verður fram á að aðgerðir lögreglunnar sæti opinberri rannsókn."

Fréttatilkynning í heild sinni á mbl.is

Matti - 18/08/05 03:05 #

Mér finnst þetta ennþá óttalegt væl.

Þau eru alsaklaus, hafa ekkert gert og eru í þokkabót ofsótt af lögreglunni.

Gunnar - 18/08/05 03:48 #

Hey, þér má alveg finnast þetta væl, ég er ekkert að reyna að fá þig ofan af þeirri skoðun :)

Þér finnst semsagt í lagi (ef rétt er) að lögreglan ryðjist inn á heimili fólks án heimildar og leggi hendur á fólk sem þar er?

Gunnar - 18/08/05 03:49 #

Og ef þú hefðir lesið fréttatilkynninguna þá hefðirðu séð að þau segjast ekki vera alsaklaus, þau tiltaka einmitt atriði sem þau viðurkenna að hafa gert.

Matti - 18/08/05 09:43 #

ér finnst semsagt í lagi (ef rétt er) að lögreglan ryðjist inn á heimili fólks án heimildar og leggi hendur á fólk sem þar er?

Gerðist það? Það er ekki talað um heimili í bréfi þeirra.

Lögreglan hefur brotist inn í húsakynni okkar án húsleitarheimildar undir því yfirskyni að birta bréf Útlendingastofnunar

Er hugsanlega að þarna sé verið að tala um húsakynni Snarrótar og að lögreglan hafi mætt þangað til að afhenda bréf? Ég sá að sjónvarpsmenn voru ekki velkomnir þangað.

Matti - 18/08/05 10:50 #

Og ef þú hefðir lesið fréttatilkynninguna þá hefðirðu séð að þau segjast ekki vera alsaklaus, þau tiltaka einmitt atriði sem þau viðurkenna að hafa gert.

Af hverju gerir þú ráð fyrir að ég hafi ekki lesið fréttatilkynninguna? Þetta er bara móðgun Gunnar.

Þau segja þar:

Við mótmæli okkar höfum við beitt aðferðum sem eiga sér ef til vill ekki langa sögu hérlendis en aðgerðir þær sem við höfum staðið fyrir flokkast ekki undir lögbrot.

"Við erum saklaus". Þetta er beinlínis rangt hjá þeim, það er lögbrot að skemma eigur annarra, jafnvel þó það felist bara í því að spreyja á vinnuskúra og skylti. það er lögbrot að hlekkja sig við vinnuvélar og stöðva þannig vinnu manna. Það er lögbrot að fara inn á lokað vinnusvæði, klifra upp á krana og neyða menn til að leggja niður vinnu.

Það er óskaplega lítið jafnvægi í hugarheimi mótmælenda. Allar þeirra gjörðir eru léttvægar og réttlætanlegar. Allar gjörðir lögreglunnar eru fasismi og ólögleg kúgun.

Þau eru saklaus, yfirvöld eru fasistar!

Vésteinn - 21/08/05 15:54 #

Lögreglan hefur brotist inn í húsakynni okkar án húsleitarheimildar undir því yfirskyni að birta bréf Útlendingastofnunar

Er hugsanlega að þarna sé verið að tala um húsakynni Snarrótar og að lögreglan hafi mætt þangað til að afhenda bréf? Ég sá að sjónvarpsmenn voru ekki velkomnir þangað.

Það er ekki Snarrót sem um ræðir þarna heldur húsið þar sem hópurinn hefur hafst við. Þegar löggan kom og krafðist inngöngu var því synjað. Löggan hafði ekki dómsúrskurð og hveði því, lögum samkvæmt, átt frá að hverfa, en í staðinn var því hótað að dyrnar yrðu brotnar upp og farið inn með valdi ef þeim yrði ekki hleypt inn -- svo ákveðið var að láta undan og hleypa þeim inn (illskiljanlegt að mínu mati). Þegar inn var komið spurðu þeir alla um skilríki og leituðu eitthvað um húsið. Svíi nokkur neitaði að tæma vasana og var þá sagt að þá yrði bara farið með hann á stöðina og hann hengdur upp á fótunum - þannig tæmdust vasarnir af sjálfu sér.

Síðan er mál hálf-áttræða prófessorsins sem lögreglan hrinti á lögreglustöðinni þannig að hann fór með höfuðið utan í eitthvað og rotaðist -- og síðan neitaði lögreglan að hringja á sjúkrabíl, sagði það ekki vera sitt mál heldur mótmælendanna sem væru með honum. Það þykir mér alvarlegt mál og óhugnanlegt.