Örvitinn

Bjór og bíó (The Island)

Skellti mér í kvikmyndahús í gærkvöldi með Eika sem heiðrar höfuðstaðinn með nærveru sinni þessa dagana.

Hófum ferðina á Kringlukránni og fengum okkur smá öl. Alltaf gaman að setjast niður og kjafta í góðu tómi.

Skunduðum í bíó þegar klukkuna vantaði tuttugu mínútur í ellefu. ég fékk mér popp og sódavatn. Þegar kortér var liðið af myndinni fór þvagblaðran að benda á að hún innihéldi nú a.m.k. tvo lítra af vökva. Ég beið eftir hléi sem aldrei kom og þvagblaðran gerðist sífellt óþolinmóðari.

The Island er ágæt hasarmynd. Mikil læti og fullt af hlutum skemmast með miklum tilþrifum. Ágætt bílaatriði þar sem járnhlunkar skoppa á hraðbrautinni með skemmtilegum hljóðeffektum. Kvenhetjan er fönguleg, karlhetjan ekki óþolandi. Get alveg mælt með myndinni á þessum forsendum. Pirrar mig alltaf dálítið þegar vísindum er stillt upp sem ógurlegu fyrirbæri og siðferðispæling myndarinnar er frekar grunn. En þetta er hasarræma, ekki heimspekifyrirlestur. Siðferðilega þótti mér áhugaverðast hvernig einn vondi maðurinn, sem stendur fyrir óskaplegum hrottaskap í myndinni, skiptir um ham og virðist ljúka myndinni sem einn af góðu gæjunum.

Eitt stakk mig við þessa mynd, það er óskaplega mikið um óbeinar auglýsingar. Puma skór, Xbox leikjatölvur á sterum, MSN Search, Budweiser, Amtrak og ég veit ekki hvað. Það var eiginlega frekar fyndið hvað þetta var áberandi. kannski hef ég séð lítið af svona myndum undanfarið en mér þótti fara meira fyrir þessu en áður.

Eftir bíó fundum við ekki salerni í Kringlunni, migum sitthvoru megin við jeppann hans Eika á neðstu hæð bílageymslunnar. Það var yndislegt eftir tveggja tíma spreng. Hápunktur kvöldsins.

kvikmyndir