Örvitinn

Hvar er South Park?

Þar sem ég sagði upp Stöð2 (og Sýn) um daginn skipti ég nú ótt og títt milli RÚV, Skjás 1 og Sirkus. Oft er eitthvað áhugavert á einni stöðinni en jafn oft ekkert á neinni. Stundum staldrar maður við endursýningar á Seinfeld, Friends eða Everybody loves Raymond, en það er frekar útaf sjónvarpsfíkn heldur en gæðum þessara þátta, maður hefur séð þetta allt áður. Bráðlega fer vetrardagskráin í gang og eflaust verður þá eitthvað betra í boði.

Ég furða mig stundum á því hvað það er verið að sýna slaka þætti í íslensku sjónvarpi, eitthvað drasl sem hefur floppað í Bandaríkjunum er sýnt hér á besta tíma, væntanlega vegna þess að það hefur kostað lítið. Á sama tíma er ekki verið að sýna fullt af áhugaverðu sjónvarpsefni.

Hvar er t.d. South Park? Hvernig stendur á því að South Park þættirnir eru ekki sýndir hér á landi. Þetta er eitthvað magnaðasta sjónvarpsefni sem til er, hrár húmor í bland við pólitíska og siðferðilega umræðu, ekkert er heilagt. þessir þættir voru á Sýn fyrir einhverjum árum, eins furðulegt og það er, Sýn hefur verið fyrst og fremst verið sportstöð í fjölda ára, en nú eru þeir ekki í boði. Ég er sannfærður um að fullt af fólki hefur áhuga á að sjá South Park. það er, að mínu hógværa mati, glórulaust að bjóða ekki upp á þetta efni.

Aðrir þættir sem þessar stöðvar ættu að skoða eru Bullshitt þættir Penn og Teller, þrælmagnaðir þættir þar sem hulunni er svipt ofan af allskonar kjaftæði, Mythbusters sem eru á Discovery, fræðsluþættir eins og Scientific American Frontiers (sem ég hef áður minnst á og vafalítið fleiri sem ég þekki ekki.

Það er svo mikið til af frábæru sjónvarpsefni sem ekki er í boði hér á landi á meðan nóg er sýnt af rusli.

Hvar er South Park? Hvernig væri að skella þeim í loftið og sýna jafnvel frá byrjun á þokkalegum tíma. Ef það fær ekki áhorf skal ég hundur heita.

menning
Athugasemdir

Gyða - 24/08/05 09:03 #

Ég vildi bara gera athugasemd við tímasetninguna því ég veit að þú varst sofandi klukkan 7 í morgun. Er verið að reyna sögufölsun svo fólk haldi að þú vaknir eldsnemma á morgnanna :-Þ Annars er ég sammála þér með efni greinarinnar.

Matti - 24/08/05 09:43 #

Hvað ertu að gefa í skyn? :-)

Ég get sett greinar í loftið "fram í tímann", var að prófa þann fítus. Var reyndar kominn á fætur fyrir átta, sem telst gott á mínum bæ.

Sævar Helgi - 24/08/05 11:20 #

Ég er hjartanlega sammála þér. Vantar South Park, Bullshit og fleiri fræðsluþætti.

Annars voru líka þættirnir Paranormal? á National Geographic Channel ansi fínir, þar var farið í saumana á mörgu áhugaverðu, svo sem draugagangi og SHC (Spontaneous Human Combustion) og það allt saman til lykta leitt. Mjög fínir þættir.

Þetta vantar allt saman.

Sævar Helgi - 24/08/05 11:22 #

Gleymdi að taka eitt fram. Ég sendi póst á Rúv fyrir nokkru síðan og benti þeim á áhugaverða stjörnufræðiþætti. Það hefur skilað sér. Af þeim lista sem ég sendi hafa tveir þættir verið sýndir og ég bind miklar vonir við að fleiri fylgi.

Sem sagt, senda dagskrárfólkinu á stöðvunum póst. Það virkar.

Matti - 24/08/05 17:00 #

Ég þyrfti að senda póst á Rúv og benda á Scientific American Frontiers, sá þáttur er kjörinn fyrir Ríkissjónvarpið. Efast um að þeir myndu sýna Bullshit, en kannski eru það bara fordómar hjá mér.

Vésteinn - 25/08/05 09:03 #

Þú meinar að það verði aftur farið að sýna South Park, er það ekki? Ég yrði mjög glaður ef það yrði gert.

Matti - 25/08/05 09:43 #

Einmitt, sýna aftur gömlu þættina og setja í loftið þá sem aldrei hafa sést hér á landi (ég held alveg örugglega að hér hafi aldrei verið sýndar nýjustu seríur South Park)