Örvitinn

Týndir hlutir

Ég uppgötvaði í fyrradag að hleðslutækið fyrir myndavélarafhlöðuna var týnt. Var að skipta um rafhlöðu og þegar ég ætlaði að hlaða þá tómu fann ég hleðslutækið hvergi. Sneri sjónvarpsstofunni við, leitaði um allt hús, í öllum töskum og pokum, fann tækið hvergi. Fann rafmagnssnúruna en ekki tækið sjálft. Varð stressaður. Hvar í ósköpunum gat tækið verið?

Tókum sjónvarpsstofuna í gegn, þar hefur ekki verið jafn fínt í langan tíma. Ekkert fannst, ég færði sófann, leitaði í sófanum, fann gamla vaxliti og ló en ekkert hleðslutæki. Í gær leitaði ég að nýju tæki á vefnum, þegar rafhlaðan sem er í vélinni núna væri búinn að tæmast (sem n.b. tekur langan tíma, rafhlöðurnar í D70 endast fáránlega vel) væri ég með óvirka vél í höndunum. Gat fengið hleðslutæki fyrir $20-$50 eftir því hvaða tegund ég myndi kaupa. Ákvað að bíða aðeins með það, lögmál Murphys segir að maður finnur alltaf hluti um leið og maður er búinn að kaupa nýtt eintak. Varð stressaðari! Hafði ég gleymt tækinu einhversstaðar í sumarfríinu?

Klukkan tvö í nótt fann ég tækið þegar ég var að fara að sofa. Varð litið á myndavélatöskuna sem ég var búinn að leita í nokkrum sinnum og fattaði að ég hafði ekki kíkt í hliðarvasana. Þar var hleðslutækið, akkúrat þar sem ég gekk frá því sjálfur. Stundum er ég of stressaður.

dagbók