Örvitinn

Ferdinand, fögur fljóð og fáránlegur DJ

Jæja, tónleikarnir voru stórfínir. Ég, Stebbi og Nathan mættum rétt rúmlega átta og náðum nokkrum lögum með upphitunarbandinu. Hljómaði þokkalega, næst síðasta lagið var best - veit ekki hvort það er sama lag og þeir spiluðu í Kvöldþættinum. Viti menn, ég skipti yfir á Sirkus og þá er einmitt verið að endurtaka þetta atriði, jú ég er að tala um sama lag, ágætt. Það var áfengissala úti í horni og Stebbi splæsti á mig einum bjór. Öryggisverðir gættu þess vel að enginn kæmist inn á áfengissvæðið sem ekki var orðið tvítugur þannig að Nathan þurfti frá að hverfa en svo mátti maður vafra með bjórinn um allt hús.

Eftir upphitunarbandið tók plötusnúður við að þeyta skífum. Sú uppákoma var í einu orði sagt fáránleg. Tónlistin var svosem ekkert alslæm, en hún var ekki í nokkrum takti við aðal band kvöldsins. Ég kann ekki að nefna tónlistarstefnuna, þetta var einhver hardcore danstónlist. Kannski var hugmyndin með þessu sú að auka eftirvæntinguna.

Hálf tíu stigu Franz Ferdinand á svið og hófu að trylla líðinn, rúlluðu í gegnum prógrammið af miklu öryggi, spiluðu alla smellina og nokkur ný lög. Nýju lögin hljómuðu ágætlega en ég þarf að heyra þetta aftur til að geta sagt eitthvað af viti um þau. Fimmtíu og fimm mínútum síðar tók hljómsveitin uppklappshlé, mér þykir það alltaf frekar kjánaleg uppákoma. Eftir uppklapp spiluðu þeir þrjú lög, slúttuðu þessu við mikinn fögnuð.

Eins og ég sagði, þá voru þetta fínir tónleikar, Franz Ferdinand á fullt af smellum á fyrri plötunni, hoppvæn lög, þó ég hafi ekki hoppað mikið, var aumur í fótunum! Stemmingin var góð, við stóðum um tíu metra frá sviðinu og ég sá þokkalega vel allan tímann þrátt fyrir að vera ekki hár í loftinu. Loftið var ekki mjög reykmettað og ölvun var ekkert sérstaklega áberandi, nokkrir fullir unglingar en ekkert sem tekur því að nefna.

Einu tók ég eftir, það voru ansi margar myndarlegar stúlkur á tónleikunum. Sumar frekar ungar en annars voru þær á öllum aldri. Kvenkyns aðdáendur Franz Ferdinand hér á landi virðist vera föngulegur hópur.

tónlist