Örvitinn

Hitt og þetta

Fór með bílinn á verkstæði í morgun. Við (ég og stelpurnar) drifum okkur á fætur klukkan átta, vorum mætt í leikskólann rétt fyrri hálf níu. Bílheimar fá stórt prik fyrir að skutla manni í vinnuna þegar maður kemur með bílinn til þeirra á verkstæðið.

Ég er andlaus þessa dagana (hefur varla farið framhjá lesendum síðunnar) og set því bara þýðingar á Vantrúarvefinn. Í nótt smellti ég inn grein um safngreiningu, um daginn voru það skúffuáhrifin Greinar sem þurfti eiginlega að þýða saman þar sem efni þeirra tengist. Þetta er ekkert rosalega spennandi efni en að mínu mati nauðsynlegar greinar, sér í lagi þegar kemur að því að rökræða við fólk um dularsálfræði, margur telur meira í gangi í þeim geira en rök eru fyrir. Næst kemur selection-bias og þarnæst Law of truly large numbers, síðasta greinin er afar gagnleg og góð að mínu mati. Bögglast í gegnum þetta þar til mér dettur eitthvað frumlegt í hug - ætti svosem að vera af nógu að taka á fermingarári (Áróru), en maður má lítið segja!

Ættarmót hjá móðurfjölskyldu Gyðu um helgina, brunum á Geysi í kvöld. Ég get ekki sagt að ég sé í stuði til að fara úr bænum, eiginlega þvert á móti. Langaði að slaka á og í mesta falli horfa á leikinn.

Tottenham-Liverpool á morgun. Þetta fer svo hægt af stað hjá mínum mönnum að maður er varla búinn að átta sig á að deildin er komin af stað. Ég er hæfilega svartsýnn fyrir leikinn á morgun, Tottenham virðast vera með gott lið, leikmenn Liverpool koma sjaldan ferskir úr landsleikjaferðum.

Afleiðing þess að drífa sig á fætur klukkan átta er að sjálfsögðu massív þreyta, ég held mér gangandi með Magic. Sleppi boltanum með vinnunni á eftir, ætla að spila síðasta utandeildarleik ársins með Henson á mánudag og tek enga sénsa. Ætti að vera orðinn góður í lærinu en maður veit aldrei. Ég hef ekki spilað fótbolta í þrjár vikur sem hlýtur að teljast hrikalegt.

Pantaði myndabók í gærkvöldi, bíð spenntur eftir að sjá útkomuna. þarf að ganga frá tveimur bókum til viðbótar, klára það mál þegar þessi kemur til landsins - vonandi í næstu viku. Þess má geta að tvær bókanna eru jólagjafir sem lofað var um síðustu jól :-|

dagbók