Örvitinn

Alkemistinn

alkemistinnAlkemistinn eftir Paulo Coelho hefur selst í meira en 30 milljónum eintaka. Gagnrýnendur halda ekki vatni og óhætt að segja að bókin sé lofuð, haft er eftir Súsönnu Svavars að þetta sé "ein af tíu bestu bókum veraldar".

Ég keypti kiljuna um daginn og las helminginn, kláraði bókina á föstudagskvöldið.

Mér Finnst Þessi Bók Drasl. Óþolandi klisjukennt nýaldararkjaftæðisdrasl.

Jæja, þetta er kannski full mikið sagt. Bókin fjallar um spænska fjárhirðinn Santiago sem heldur í ferð til Egyptalands til að finna fjársjóð við Pýramídana. Á för sinni lendir hann í ýmsu og lærir margt um tilgang tilverunnar.

Einhverjir telja víst Margir halda því fram að mikil speki sé í bókinni, ég varð ekki var við hana. Að mínu mati eru þetta mest megnis einhverjir nýaldarfrasar blandað saman við gallúpspeki, ósköp klént allt saman. Ef maður hunsar nýaldargallúpspekina stendur eftir afar rýr bók og í raun ekkert merkileg saga. Sífellt er verið að tala um Örlagakosti (með stórum staf), Allsherjarsál Heimsins (að sjálfsögðu með stórum staf), Ástina (jebb - stór stafur), Hann (jamm). Lífsspekin sem vellur úr Alkemistanum lætur frá sér er ekki nokkur speki, grínlaust.

Þið haldið eflaust að ég sé að ýkja en hér er dæmi, ég fletti bókinni og valdi það fyrsta sem ég sá.

Úlfaldarekinn var hljóður; hann heyrði það sem pilturinn var að segja. Hann vissi að sérhver hlutur á yfirborði jarðar gæti hermt sögu allra hluta. Ef þú opnar bók á einhverri blaðsíðu, eða skoðar í lófa manna, eða spil úr stokki, eða fylgist með flugi fugla, eða hvað sem væri, þá gæti hver og einn fundið tengsl við það sem hann lifði sjálfur. Sannast sagna eru það ekki hlutirnir sjálfir sem sýna neitt, það eru manneskjurnar sem með því að skoða hlutina, finna leiðina til að komast í snertingu við Allsherjarsál Heimsins. (Alkemistinn, bls. 114)

Svona er bókin út í gegn, gallúpnýaldarfrasar aftur og aftur og aftur - Með Stórum Staf.

Kaflar bókarinnar eru allir stuttir og þá meina ég afar stuttir, ein og hálf blaðsíða að jafnaði. Þetta er kannski skýringin á vinsældum bókarinnar, hún er svo stutt að flestir geta bögglast í gegnum hana á einni kvöldstund og þar sem það er búið að hæpa hana upp finnst fólki eins og það hafi klárað merkilega bókmennt. Auk þess er ótrúlega hátt hlutfall orðanna skrifað með Stórum Staf. Mér finnst það pirrandi Stíll (eða hvað það er kallað) Að einhverju leyti minnir þetta mig á Söguna af Pí, báðar bækurnar ganga út á yfirnáttúru og eru, svo ég ofnoti frasann, nýaldarfrasabókmenntir.

Ég skil ekki af hverju svona bók slær í gegn. Ef ég les einu sinni í viðbót um Allsherjarsál Heimsins og Örlagakost (með stórum staf) er það einu sinni of oft.

bækur
Athugasemdir

Kristján Atli - 12/09/05 12:39 #

Úff!

Ég hef ekki enn komið mér til að lesa þessa bók, en eftir þessa gagnrýni þína þá dreplangar mig til að lesa hana! :-)

Matti - 12/09/05 13:11 #

Ég mæli með því að þú lesir bókina. Ætti ekki að taka nema 3-4 tíma ef þú lest hana í einum rykk. Ég las helminginn fyrir svefninn eitthvað kvöldið og nennti svo ekki að klára hann fyrr en á föstudaginn, 2-3 vikum eftir að ég byrjaði.

Mér dauðlangar að heyra álit annarra, 30 milljón manns hafa varla rangt fyrir sér :-)

Mia - 18/09/05 21:55 #

Æi, Alkemistinn.......þetta er nú bara saga um að maður eigi að rækta garðinn sinn. Ekki leita langt yfir skammt.......eins og Birtingur (Voltaire) sem kom fyrst út 1759 og er alveg klassísk.

Matti - 18/09/05 23:15 #

Já en Birtingur en einmitt uppáhaldsbókin mín :-) Kosturinn við hana er að hún er fyndin og skemmtileg, Alkemistinn er að rembast við að vera alvöruþrungin bók (tja, ekki bókin sjálf, en þið vitið hvað ég meina)