Örvitinn

Tölvupóstur, mbl og Össur

Ég er ekki alveg að fatta innlegg Össurar í umræðuna um birtingu tölvupósts í fjölmiðlum. Hann er semsagt að benda á að Morgunblaðið hafi ekki efni á að gagnrýna Fréttablaðið fyrir birtingu tölvupósts Jónínu Ben, sem virðist stolinn, því Mogginn hafi áður meðal annars birt tölvupóst Össurar. Hann segir:

Það er einsog hann hafi líka gleymt að Morgunblaðið sjálft setti fyrsta fordæmið varðandi birtingu stórblaðs á einkapósti úr tölvu vitandi vits um að það var bæði í óþökk sendanda og viðtakenda.

Er ekki sá eðlismunur á þessum málum að bréfið sem Morgunblaðið birtir kemur frá móttakenda tölvupóstsins. Viðtakandi bréfsins ræddi efni þess í fjölmiðlum og kom bréfinu í hendur þeirra. Er það satt að þetta hafi verið birt í óþökk viðtakanda eða er Össur ekki að ræða um tölvupóstinn sem hann sendi forsvarsmönnum Baugs um miðja nótt?

Ég get ekki séð að það sé margt sameiginlegt með þessum málum, því ljóst virðist að tölvupóstar þeir sem Fréttablaðið hefur verið að birta eru "þjófstolnir", þ.e.a.s. hvorki sendandi né móttakandi póstsins kom honum til Fréttablaðsins.

Ég myndi telja mig hafa rétt til þess að gera nokkurn vegin hvað sem er við þann tölvupóst sem mér berst, nema náttúrulega pósturinn berist mér fyrir mistök. Samkvæmt lögum mætti ég þá ekki nýta hann.

Nákvæmlega sama gildir um póst sem sendur var á alla alþingismenn og birtist í Morgunblaðinu, það má ljóst vera að einhver móttakandi póstsins kom honum til Morgunblaðsins.

Ég skil því ekki alveg þetta innlegg Össurar.

pólitík
Athugasemdir

Snorri - 02/10/05 13:30 #

Ritstjóri Morgunblaðisins vissi að bæði sendandi og viðtakandi tölvpóstsins voru mótfallnir birtingu hans. Birting tölvupóstsins var í óþökk viðtakanda. Sjá t.d. Silfur Egils 2. október 2005

Matti - 02/10/05 13:44 #

Dreifði móttakandi tölvupóstsins honum ekki? En var samt á móti birtingu!

Ertu að vísa til sjónvarpsþáttarins Silfur Egils? Ég missti af honum.

Snorri - 02/10/05 14:51 #

Viðtakandinn, sem var Jóhannes J. ef ég skil málið rétt, dreifði ekki póstinum. Lögmaður Baugs, Hreinn L, vissi greinilega af honum og kom innihaldi hans til ritstjóra Morgunblaðsins. Ritstjórinn vildi ekki birta stolinn tölvupóst en fannst í lagi að birta endursögn Hreins á innihaldi hans! Morgunblaðsritstjórinn vissi að viðtakandi tölvupóstsins kærði sig ekki um að innihald hans yrði birt.

Snorri - 02/10/05 14:52 #

PS Jú Össur sagði frá þessu í Silfrinu í dag, 2. okt. kv

Matti - 02/10/05 14:56 #

Þannig að lögmaður Baugs dreifði innihaldi póstsins í óþökk Jóhannesar. Hélt hann starfi sínu þrátt fyrir þetta?

Er ekki hugsanlegt að þetta hafi verið gert með samþykki Jóhannesar og til þess gert að koma höggi á Össur?

Ég þarf að kíkja á endursýningu, það fór eiginlega alveg framhjá mér að þættirnir væru byrjaðir aftur. Af sem áður var þegar ég mátti varla missa af þætti.