Örvitinn

Óvirk umferðaljós, ísskápur og ljósmyndabók

Gyða með bókinaÉg var á heimleið í dag þegar rafmagnið fór af stórum hluta Reykjavíkur. Umferðin gekk ótrúlega vel þrátt fyrir að öll umferðarljós væru óvirk. Fólk hafði vit á því að stoppa og hleypa öðrum akreinum áfram. A.m.k. flestir. Það er nefnilega svo merkilegt að það þarf ekki nema lítið hlutfall til að hafa vit fyrir fjöldanum í svona ástandi, ef einhver einn stoppar eru yfirgnæfandi líkur á að aðrir stoppi líka. það var ekki fyrr en ég var kominn að brúnni yfir Reykjanesbraut við Mjódd sem þetta klikkaði en sem betur fer kom rafmagnið aftur þegar ég hafði beðið þar í stutta stund.

Ísskápurinn er kominn úr viðgerð, allt í allt kostaði þetta um sjötíuþúsund með flutningum. Það er fljótlegt að eyða peningum. Það gekk vel að bera ísskápinn upp, vorum ekki nema tvær mínútur upp stigann, átti von á því að þetta yrði erfiðara.

Fékk ljósmyndabókina í kvöld. Kemur helvíti flott út, sérstaklega stóru myndirnar. Nú þarf ég að drífa í að gera tvær bækur í viðbót, eina handa foreldrum mínum og aðra handa Eika og Oddný, fæ 50% afslátt ef ég panta fyrir næstu mánaðamót. Á myndinni fyrir ofan heldur Gyða á bókinni, hér er önnur mynd

dagbók
Athugasemdir

Sirrý - 05/10/05 22:51 #

Þetta er ekkert smá flott bók. Hvar keyptir þú þetta ?

Matti - 05/10/05 22:57 #

MyPublisher heitir það. Ansi sniðugt, maður sækir hugbúnað hjá þeim, setur myndirnar inn í bókina og texta með. Þetta er sama dæmi og er á bak við bókaprentun í iPhoto.

Einn stór galli er á þessari þjónustu, ef maður býr til tvær mismunandi bækur geta þeir ekki tryggt að þær séu sendar í sama pakkanum, sem er dálítið pirrandi þegar flutningskostnaður er næstum jafn mikill og prentkostnaðurinn.

En þetta er ansi flott.

Arnaldur - 05/10/05 23:43 #

Sæll Matti!

Hvað kostar svona kvikindi komið á Klakann?

Matti - 06/10/05 00:23 #

Verðið fer eftir blaðsíðufjölda.

Þessi bók er 33 bls og inniheldur 72 myndir.

Tollverð (þ.e.a.s bók + flutningar á gengi dagsins í dag er 4.127 ($65,17), ofan á það leggst tollur, virðisaukaskattur og gjald fyrir tollmeðferð, samtals 1.875, þannig að bókin kostar samtals 6,000.- krónur.