Örvitinn

Bústaður, greftrun á Sigló og Norðurljós

norðurljósFórum í bústaðinn á föstudagskvöld, brunuðum úr bænum eftir kvöldmat. Það var gríðarlega stjörnubjart og norðurlausin skreyttu himinn þegar við komum. Ég skellti mér út og tók nokkrar myndir. Um kvöldið slökuðum við á, fengum okkur örlítið rauðvín og osta. Tengdaforeldrar mínir fengu jólagjöfina og virtust ansi sátt þó gjöfin kæmi seint.

SiglóLaugardagsmorgunin fórum ég og Gyða til Siglufjarðar, stelpurnar voru eftir í bústað hjá ömmu sinni, afi þeirra þurfti að fara í bæinn að sætta menn. Lögðum af stað úr bústaðnum klukkan níu og vorum komin á áfangastað hálf tvö, stoppuðum í hálftíma á Sauðárkróki í hádeginu. Fórum heiðina milli Skagastrandar og Sauðárkróks sem styttir leiðina töluvert, ég hef aldrei farið þá leið áður. Það var kuldalegt á heiðinni og dálítil hláka á leiðinni en annars var færðin fín. Í Fljótum var veðrið reyndar orðið ansi leiðinlegt. Ég, Gyða og Jóna Dóra fórum í smá göngutúr um bæinn. Röltum á Aðalgötuna og skoðuðum staðinn þar sem hús ömmu og afa stóð. Reyndum að lýsa húsinu fyrir Gyðu og rifjuðum ýmislegt upp um leið. Mér finnst ákaflega leiðinlegt að húsið sé ekki þarna lengur en það var svosem ekki í neinu standi. Það sló mig að sjá hversu miklar framkvæmdir eru í gangi í fjallshlíðinni fyrir ofan bæinn, rúið að rústa brekkunni. Snjólflóðavarnirnar eru svakaleg mannvirki.

við greftrunGreftrunin fór fram klukkan fjögur í afar leiðinlegu veðri, varla stætt úti. Þetta var a.m.k. eftirminnilegt. Fyrir og eftir athöfn vorum við heima hjá Elsu og Jóni, þar var boðið upp á veitingar eftir athöfn. Við höfðum ráðgert að gista á Siglufirði en það varð ekkert úr því og við brunuðum úr bænum rétt rúmlega fimm. Fórum aftur í bústaðinn, buðum foreldrum mínum og Jónu Dóru í kvöldmat og gistum þar um nótt. Aftur skörtuðu norðurljósin sínu fegursta og ég fór út og tók mynd. Þetta var furðulegur dagur, mikið ekið og stoppað stutt á Sigló. Ég á ekki von á því að koma þangað aftur í bráð.

útsýni af þaki bústaðsinsÍ dag var slakað á, ég eyddi stórum hluta dags í að spila Civ, Gyða glímdi við Sudoko þrautir meðan aðrir fóru í göngutúr. Ég fór örstutt upp á þak til að tékka á skorsteininum og svo aftur til að taka mynd af umhverfinu, photoshop klikkaði eitthvað á samsetningu þannig að þetta er bara 2/3 af myndinni. Ása og Jens kíktu við í dag, en þau eru í stuttu stoppi frá Danmörku. Okkur tókst að opna arininn og Ásmundur fékk að búa til bál.

Við fórum heim fyrir kvöldmat. Stelpurnar voru orðnar þreyttar eftir helgina og við reyndar líka.

Eins og sést tók ég myndir

dagbók
Athugasemdir

Sævar Helgi - 10/10/05 03:00 #

Þetta eru flottar norðurljósamyndir hjá þér. Svona til gamans má geta að græni liturinn stafar af jónuðum súrefnisatómum í um 100-200 km hæð yfir jörðinni. Á norðurljósamynd númer tvö sést svokölluð norðurljósakóróna. Mjög glæsilegt.