Örvitinn

"Þú dúndraðir hurðinni í bílinn minn"

Fékk að heyra þetta þegar ég var að festa Ingu Maríu í bílstólinn fyrir utan leikskólann á föstudag. Hafði opnað hurðina á jeppann við hliðina (sem n.b. lagði ekki í mitt stæðið heldur yfir línuna mín megin). Hurðina opnaði ég ósköp rólega og lagði upp að jeppanum. Öðruvísi kom ég barninu ekki í bílinn.

"Nú", sagði ég frekar hissa, kannaðist ekki við að hafa dúndrað hurðinni. Hún benti á bílhurðina sem lá upp við jeppann Ég færði hurðina frá jeppanum og þreif farið með puttanum, það sást ekkert á bílnum. Ef ég hefði dúndrað hefði lakkið rispast eða jafnvel komið beygla. "Ég heyrði skellinn" sagði konan og leitaði eftir farinu. Ég gat lítið sagt.

"Passaðu þig næst" sagði hún svo og lét sig hverfa aftur inn í bíl.

Á bílnum mínum eru ótal rispur og för eftir bílhurðir sem aðrir hafa dúndrað á minn. Óskaplega væri ég feginn ef annað fólk dúndraði á sama hátt og ég.

dagbók