Örvitinn

Kraká - ferðasaga í mýflugumynd

Kastalinn í KrakáVið fórum til Krakó á fimmtudag. Flugferðin var ágæt fyrir utan það að við sátum ekki saman, það var þó stutt á milli okkar, sátum við gangveginn í sitthvorri sætaröðinni, ég einni röð fyrir aftan Gyðu. Trackwell var ekki eina fyrirtækið sem var að fara til Kraká, Smith & Norland voru líka að fara með ansi stóran hóp og það er óhætt að segja að sumir þeirra hafi verið ansi "hressir" í flugvélinni. Valdi, farðu í áfengismeðferð.

Vorum komin á Holiday Inn hótelið í Kraká um níu um kvöldið. Röltum í bæinn að leita að veitingastað ásamt hópi fólks. Það gekk frekar brösulega, fórum um tólf á einn stað í kjallara en var tilkynnt að við fengjum ekki þjónustu fyrr en eftir klukkutíma, við ákváðum að bíða en þegar barþjóninn neitaði að þjóna okkur gafst helmingur hópsins upp og fór annað. Við enduðum á bar þar sem við fengum okkur smárétti. Komumst þá að því að matur og vín kostar afar lítið í Póllandi. Fórum snemma á hótel og vorum komin í bælið í kringum miðnætti.

Vöknuðum snemma á föstudagsmorguninn og fengum okkur morgunmat á hótelinu. Klukkan níu fórum við í skoðunarferð um Kraká. Fórum í rútu, fyrsta stopp var gyðingahverfið. Þar stoppuðum við stutt, sáum bænahús gyðingan og fengum smá fyrirlestur um sögu þeirra í Póllandi. Fyrirlesturinn er aðallega eftirminnilegur fyrir það þegar leiðsögumaðurinn fór útaf strikinu og byrjaði að tjá sig um ástandið í Palestínu. Gekk hún þar fram af ansi mörgum en enginn sagði neitt.

Eftir gyðingahverfið fórum við í kastalann og skoðuðum. Einna merkilegast við hann er afar ljót kirkjubygging þar sem turnarnir þvælast hver fyrir öðrum. Þegar kastalatúr var lokið rölti hópurinn á miðbæjartorgið og stoppaði í kirkju. Fengum þar meðal annars að heyra útskýringu á blásurum í kirkjuturninum sem spila alltaf á heila tímanum en klára aldrei stefið. Skoðunarferðinni lauk á torginu og þaðan röltum við á veitingastað. Kíktum þvínæst á markaðinn þar sem ég fjárfesti í forláta tafli fyrir fimmtán hundruðu krónur. Held ég að þetta tafl hafi verið algengasta fjárfesting Trackwell manna í þessari Krakáferð. Ég fjárfesti líka í skóm skömmu síðar þar sem hversdagsskórnir mínir voru fyrir löngu komnir á tíma, skórnir kostu varla neitt.

Um kvöld var árshátíðin. Hópurinn fór út að borða á fínum veitingastað. Þetta gekk reyndar frekar brösulega hjá okkur þar sem Gyða fékk heiftarlega í bakið og þurfti að yfirgefa svæðið. Ég rölti með henni aftur á hótel þar sem hún fór í bað og reyndi að slaka á. Ég fór aftur á veitingastaðinn og svo með hópnum út á lífið. Smakkaði þar smá bjór og vodka og varð örlítið kenndur.

Á laugardag slepptum við morgunmatnum á hótelinu og kíktum í bæinn. Fengum okkur pólskan mat á fínum veitingastað. Ég fékk mér kássu sem var borin fram í brauði en Gyða fékk sér "dumplings". Hvoru tveggja afar gott og kostaði náttúrulega sama og ekki neitt. Eftir hádegi hélt ég svo til Auschwitz og Birkenau, Gyða hætti við ferðina, treysti sér ekki í langa ferð útaf þessu bakveseni. Í staðin fór hún á kaffihús og kíkti í einhverjar búðir.

Rútuferðin til Auschwitz var hræðileg, ég var alveg við það að verða bílveikur en slapp með því að anda djúpt og stara út um gluggann. Reyndi að hlusta á góðan farastjóra fræða okkur ítarlega um áfangastaðinn. Það var gríðarlega lærdómsríkt að rölta um útrýmingarbúðirnar og pólskur leiðsögumaður okkar var hafsjór fróðleiks, með allt á hreinu og gat sagt okkur ótal sögur tengdar búðunum. Ég stakk hann því ekki af :-) Þó ég hafi ekki tekið þetta mjög mikið inn á mig er ljóst að þessi heimsókn hefur breytt hugmyndum mínum um þessa verknaði töluvert. Ég vissi að þetta var hroðalegt, en ekki hve kaldrifjað og skipulagt þetta var.

Við komum aftur á hótel um átta og skelltum okkur út að borða. Í þetta skipti fórum við á Indverskand veitingastað sem við höfðum rölt framhjá daginn áður. Pöntuðum ógrynni af mat loks þegar við fengum athygli afar stressaðrar þjónustudömu. Hún stóð sig með prýði að lokum þó hún hefði gleymt forréttum, sem hún kom með á sama tíma og aðalrétti. Maturinn var geðveikur og ég borðaði þar til ég gat ekki meir. Gat ekki sofnað þetta kvöld vegna þess að ég var svo saddur, lá í rúminum og leysti þrautir í Times.

Fengum okkur morgunmat á hótelinu á sunnudag, tékkuðum okkur út og röltum svo í verslunarmiðstöð (já, ég veit ég sagðist ekki ætla að gera það - en fjandakornið, maður getur ekki staðið við allt). Við stoppuðum reyndar stutt, fórum í Zöru og versluðum föt á stelpurnar. Fórum svo aftur á hótel með fötin og þvínæst í miðbæinn. Fórum þar á afar góðan veitingastað og fengum frábæran mat sem kostaði sama og ekki neitt.

Rétt fyir fjögur fórum við svo með rútu frá hótelinu út á flugvöll. Við vorum með þeim fyrstu í checkin og í þetta skipti vorum við í sömu röð en sitthvoru megin við gangveginn! Við vorum komin heim í Bakkasel um tíu í gærkvöldi.

Þetta var fín ferð, góðum tíma eytt á veitingastöðum þar sem matar og öls var notið. Skoðuðum slatta en samt ekki of mikið, versluðum eitthvað en eyddum samt ekki miklum tíma í búðarráp. Eini gallinn við svona ferð er að maður þyrfti eiginlega að taka sér helgarfrí að henni lokinni.

Setti inn nokkrar myndir, á eftir að bæta fleiri inn.

ps. Ég fann ekkert Prins Póló.

dagbók
Athugasemdir

Ásgeir H - 26/10/05 00:25 #

Heppnari en ég með guide, minn var með regnhlíf þrátt fyrir að það hafi rignt samanlagt þrem regndropum á mínútu og lét eins og hún væri í Disneylandi. Sem var viðeigandi því hún leit út eins og Mína mús ...

Matti - 26/10/05 14:50 #

Já, hann var ansi góður. Sagði okkur svo miklu meira en bara það sem stóð á upplýsingaskiltum. Frásögur af lífi fanganna, hvernig "afurðir" voru nýttar og svo framvegis. Ótrúlega fróðleg ferð.