Örvitinn

Villibráðarhlaðborð Perlunnar

Í tilefni dagsins fór fjölskyldan út að borða í gærkvöldi. Skelltum okkur í Perluna sem býður upp á villibráðarhlaðborð um þessar mundir..

Fjölskyldan mætti á staðinn rétt fyrir sjö. Stelpurnar voru búnar að fá fyrirlestur um hegðun á fínum veitingastöðum, hafa svosem heyrt hann áður og þykjast kunna þetta allt saman. Yfirleitt kemur annað á daginn :-)

Mér sýnist matseðillinn á netinu ekki vera alveg nákvæmur, eflaust rótera þeir þessu eitthvað. Maturinn var mjög fínn og allir gátu fundið eitthvað við sitt hæfi (stelpurnar fundu náttúrulega líka helling sem þeim fannst ekki spennandi en pabbi þeirra reddaði því).

Forréttir voru fjölbreyttir, tvennskonar carpaccio stóð upp úr þar ásamt ágætri kæfu. Tvennt stóð upp úr á aðalréttaborði að mínu mati, villisveppir í smjördeigsformi og hreindýrakjötið. Sé eftir að hafa ekki fengið mér meira af hreindýrinu og sleppt desertunum í staðin, er ekkert sérstaklega mikið fyrir deserta.

Þjónustan var til fyrirmyndar en þeir hefðu samt mátt slaka aðeins á í að fjarlægja diska með hnífapörum. Þegar maður fer á hlaðborð vill maður stundum fara eina ferð í viðbót en þjónn setur á mann óþarfa pressu með svona dugnaði :-)

Reikningurinn var eins og gengur og gerist á íslenskum veitingastöðum. Rétt rúmar átján þúsund krónur með hálfri rauðvínsflösku (1750.-) og þremur gosglösum (750.-), við borguðum ekkert fyrir Kollu og Ingu Maríu en fullt verð fyrir Áróru. Þess má geta að þetta er töluvert hærri upphæð en við hjónin eyddum í mat og drykk í Krakáferðinni (fimm sinnum út að borða með bjór og léttvíni). Það segir reyndar meira um verðlagið í Póllandi en hér á landi.

veitingahús
Athugasemdir

Unnur - 02/11/05 13:42 #

Ég og unnustinn fórum einmitt á villibráðarhlaðborðið í fyrrakvöld og vorum afskaplega ánægð :) Þjónninn okkar varaði okkur sérstaklega við því að taka hnífapörin til hliðar til að geta heimsótt forréttaborðið aftur seinna ef við vildum. Gott hjá ykkur að taka stelpurnar með, fólk gleymir því oft að þótt hún birtist öðruvísi þá er það líka upplifun fyrir börn að fara á fína veitingastaði með foreldrum. :)

Matti - 02/11/05 18:37 #

Eftir aðra umferð í aðalréttum hjá mér kom þjónn og spurði hvort hann mætti taka disk ásamt hnífapörum og ég var bara of mikil gunga til að segjast vera að spá í að fara í þriðja sinn :-)

Þess má geta að ég treð aldrei á diskinn minn á hlaðborði, fæ mér alltaf eina sort í ferð og geri ráð fyrir mörgum ferðum.

Unnur - 03/11/05 09:39 #

Hehe... :) Skil þig með að finnast óþægilegt að segjast ætla að éta allt hlaðborðið og veitingahúsið líka ;) Maður er oft svo kjánalega feiminn á veitingahúsum ;)