Örvitinn

Lúinn

Ég er uppgefinn. Hitti Einar Má, Eika og Regin á föstudagskvöldið. Sátum og spjölluðum fram á nótt. Ég sötraði bjór og whisky, langt síðan ég drakk whisky.

fyllingÁ laugardag mætti ég klukkan ellefu í vinnuna til að elda kalkúna. Ég og Jón Magnús rumpuðum þessu af, skelltum dýrinu í ofn rétt fyrir leik og fórum svo niður í hálfleik. Komumst að því að iðnaðarofnar eru dálítið mikið öflugri en venjulegir heimilisofnar. Gerðum ráð fyrir að fuglinn þyrfti að vera sex - sjö tíma í ofninum en hann var tilbúinn á fjórum. Við vorum duglegir að ausa á hann og kjötið var mjög vel eldað, bringan var djúsí og góð. Ég var ekkert sérstaklega ánægður með fyllinguna, fannst hún ekki mjög spennandi. Held ég geri aprikósufyllinguna á aðfangadag.

Jólahlaðborðið heppnaðist vel, góð stemming og fullt af góðum mat. Við kíktum í bæinn á miðnætti og hittum Eika og Davíð á Dubliners. Ég var í bænum til þrjú.

Í dag sótti ég stelpurnar úr pössun hjá tengdó og kíkti aðeins í Smáralind, þær fengu að kaupa sér dót fyrir smápening í Tiger, þótti það ekki leiðinlegt.

dagbók