Örvitinn

(S)tuð

Í morgun varð ég vitni að því að kvenmaður á gulri Opel Corsa bifreið teygði sig yfir farþegasætið, skrúfaði niður rúðuna farðþegamegin og fleygði út rusli á Breiðholtsbrúnni. Mér blöskraði. Lagði númerið á minnið, en er búinn að gleyma því, man bara töluna [385]. Af hverju man ég töluna? Jú þetta er einum minna en 386, sbr Intel 386. Ég er nörd.

Einar Karl Haraldsson er á forsíðu Blaðsins. Fyrsta orð fyrirsagnar er við viðeigandi. Hræsni. Einar Karl og kollegar hans sjá sér hag í því að búa til ímyndað stríð um kristsmessuna. Það er ekkert stríð í gangi þó Bandarískir ofsatrúaðir íhaldsmenn reyni að sannfæra fólk um annað.

Ég fylgdist með Liverpool leik dagsins í gegnum netið, refreshaði ynwa spjallið og kíkti eftir viðbrögðum Jóns Magnúsar sem var að hlusta á lýsingu á leiknum. Sótti mörkin af netinu, þau eru flott. Ég er einn þeirra sem hef haft trú á Crouch allan tímann, já ég lýg engu.

Gleraugun venjast hægt. Það er beinlínis óþægilegt að vera með þau þegar maður starir ekki á skjáinn eða annað innan faðms. Ekki sé ég betur enn, en þreytist kannski minna, það á eftir að koma reynsla á þetta.

Kolla er veik. Vaknaði með magaverk í nótt en hefur ekkert kastað upp. Var hressari í morgun en með smá hita. Gyða var heima í morgun, þær sváfu lengur mæðgur, en svo hefur Kolla verið hjá Gunnu ömmu sinni.

Á mánudag fer leikskólinn í kirkjuna. Kolla er búinn að vera að æfa söng ásamt hinum elstu krökkunum.. Hvað getur maður gert? Ekki fer ég að draga börnin mín úr hópastarfi (vísdómsstarf, eiginlega undirbúningur fyrir barnaskóla) - það er einfaldlega ekki hægt. Ég ætla að mæta með á mánudag. Hver veit, kannski verð ég með ólæti í kirkjunni!

Unglingar í Ölduselsskóla fara til Kirkju ásamt kennara eftir litlu jólin! Er ekki allt í lagi? (svar: Nei)

dagbók