Örvitinn

Bla bla bla

Ég og Gyða fórum í Kringluna í kvöld. Keyptum nokkrar jólagjafir, eigum bara eftir að kaupa gjöf handa Ingu Maríu og hvort öðru. Komum við í Byggt og búið. Þar keypti ég kjöthitamæli með snúru og pumpusprautu til að sprauta soðinu yfir kalkúnann (Jón Magnús var með svona mæli og sprautu þegar við elduðum kalkúnann um daginn, þetta er snilld). Einnig keypti ég þrjá pizzudiska með götum, prófaði þá í kvöld - þetta er nokkuð sniðugt. Eldaði pizzur þegar ég kom heim, þær voru voðalega flottar svona kringlóttar.

Jóna Dóra afboðaði sig í morgun, en ég sá ekki sms-ið frá henni fyrr en ég var mættur til að sækja hana korteri fyrir sjö (hún sendi sms-ið rétt rúmlega fimm í morgun). Ég hefði aldrei nennt á fætur ef ég hefði vitað að hún væri ekki að bíða eftir mér - þannig að það er eins gott að hún lét mig ekki vita kvöldið áður.

Spilaði og kláraði Call of Duty 2 um helgina. Þrælskemmtilegur skotleikur. Spilaði hann á venjulegum styrk, frekar léttur þannig en sagan gengur nokkuð hratt áfram. Held það hafi tekið mig um tíu klukkutíma að klára leikinn (jamm, ég spilaði tölvuleik í um tíu tíma um helgina, svaf ekkert rosalega mikið). Prófaði að spila leikinn á erfiðari stillingu í gærkvöldi, það var allt annað og miklu skemmtilegra. Hljóð og grafík í þessum leik er alveg geggjað, sérstaklega hljóðið.

Við erum kominn með jólakalkúna í hús, rétt rúmlega sjö kílóa dýr er að þiðna hægt og rólega í ísskápnum.

Pikkaði inn tvær blaðsíður úr The Blind Watchmaker fyrir sköpunarsinna sem vitnar reglulega í bókina án þess að hafa lesið hana. Trixið er að vitna einungis í setningar án þess að taka tillit til þess samhengis sem þær eru í. Ég er hræddur um að þessar mínútur sem ég fórnaði í pikkið séu til lítils, gaurinn er sjúkur.

dagbók