Örvitinn

Jólaboð í Ensku húsunum

Margir saman í stofunniVorum í Ensku húsunum í nótt ásamt föðurfjölskyldu minni. Þetta hefur verið hefð á annan í jólum síðustu tíu ár, förum þangað og borðum saltað svínslæri.

Því miður klikkaði saltaða svínslærið sem ég er búinn að hlakka til að borða í marga mánuði, í þetta skiptið var það kjötsalinn sem klikkaði því lærið var bara alls ekki saltað. Annað hvort fór vinnslan úrskeiðis eða rangt kjötstykki var afgreitt. Svínakjötið var gott, það er ekki málið, en þetta var ekki jafn gott og salta svínslærið. Jæja, maður bíður eitt ár í viðbót.

Stemmingin var fín og mikið var spilað, Sequence á einu borði og Scrabble á næsta. Smá bjór og smá rauðvín. Afar huggulegt.

Ég setti inn myndir. Ég tók þær reyndar ekki allar, Tóti fékk að leika sér með myndavélina og tók slatta af myndum þar til batteríið kláraðist. Ég hafði gleymt að hlaða varabatteríið og var ekki með hleðslutækið með, þannig að myndatöku lauk fyrr en ráðgert var. Í dag var svo að sjálfsögðu ótrúlega margt sem ég hefði viljað taka myndir af, sérstaklega á heimleiðinni, birtan var mögnuð.

Við vorum í fríi í dag þannig að við þurftum ekki að bruna í bæinn. Mikið var ég feginn að hafa lengt jólafríið um einn dag.

dagbók