Örvitinn

Þekkt og óþekkt andlit

Þegar við vorum á bráðamóttöku Landspítalans við Hringbraut aðfaranótt jóladags sá ég aðstandanda í einu herbergi sem ég vissi að ég þekkti í sjón en þekkti samt ekki. Ég sá ekki með hverjum hann var, dyrnar voru hálflokaðar, en þessi aðstandandi blasti við og leit á mig þegar við vorum að fara út. Ég rembdist við að rifja upp hver þetta var en það virkaði ekkert. Hafði kannski eitthvað með það að gera að þetta var klukkan fimm um morguninn og ég var úrvinda.

Þegar við vorum að keyra aftur í bæinn í gær í fallegu birtunni, þar sem ég bölvaði mér í hljóði fyrir að vera með batteríslausa myndavél, mundi ég þetta allt í einu. Var ekki einu sinni að hugsa um þetta. Það var bara einhver vinnsluþráður í endalausri lykkju sem skyndilega fann andlitið og tengdi það við landsþekkta persónu. Segi ekki frá því hver þetta er, maður blaðrar ekki um það sem maður sér á bráðamóttökunni.

Annars kom niðurstaða í morgun, myndarlegur gallsteinn er málið!

Ýmislegt