Örvitinn

Vín og skel

Við hjónin kíktum á Vín og skel í gærkvöldi. Ég hringdi í gær og pantaði borð klukkan átta sem var eins gott því það staðurinn var fullsetinn um kvöldið. Þetta er lítill staður í bakhúsi við Laugaveg. Fjögur fjögurra manna borð á efri hæð, þrjú borð niðri. Að mínu mati skemmtilegur staður, smekklegur og þægilegur. Ég var afskaplega ánægður með að staðurinn er reyklaus, reykingarfólk getur farið út á svalir og reykt í þokkalegu yfirlæti. Úti er hitari svo fólk ofkælist ekki ekki meðan það svalar nikotínfíkninni.

Matseðill staðarins er skrifaður á stóra krítartöflu. Við sátum upp við vegginn og sáum því ekkert sérlega vel á töfluna en það kom ekki að sök.

Á borð var borið mjög gott brauð og þrennskonar viðbit, hvítlaukssmjör, mauk með tómat og ólífu og svo karrýblanda sem var ansi sérstök, innihélt karrý, brauðrasp, salt og hnetur. Afar gott. Einnig var okkur boðið upp á smá smakk, hakkaða steinseljurót með rjóma sem var borið fram heitt í staupi og borðað með teskeið. Það fannst mér alveg sértaklega braðgott. Tómatólífumaukið var sérlega gott. Ég er afar hrifinn af slíku.

Ég fékk mér snigla (900.-) í forrétt, Gyða fékk sér salat með reyktum lax og hörpuskel (1040.-). Sniglarnir voru mjög góðir og Gyða var ánægð með salatið. Í aðalrétt fékk ég mér stóran skammt af humar (4190.-) og Gyða pantaði stóran skammt af kræklingum (2090.-) Með þessum fengum ýmisskonar meðlæti í litlum skömmtum, kartöflur, gulrætur, lauk með balsamic edit og rauðvíni auk polentu með parmesan. Humarinn var hrikalega góður, það jafnast fátt á við góðan humar. Yndislegt að sitja og brjóta skelina og komast í góðgætið. Gyða var ekki síður ánægð með kræklinginn sinn. Skammtarnir voru vel útlátnir enda pöntuðum við stærri útgáfurnar. Máltíðin, með brauði og öllu var því vel útlátin. Við leifðum þó engu en það er merki um gæði matarins.

Með matnum drukkum við hvítvínsflösku sem ég man ekker hvað hét, en hún kostaði 3180.- Ég get alveg mælti með 3180 króna hvítvíninu :-) Heildarkostnaður fyrir okkur tvö með forrétt, víni og einum bjór var 12.030.- sem mér finnst hæfilegt.

Þjónustan var frábær, matur skilaði sér tímanlega en án asa og viðmótið var afar þægilegt. Ég gleymdi kreditkortinu á borðinu, ég fattaði það um leið en var ekkert að stressa mig, fékk SMS frá þeim skömmu síðar og sótti kortið eftir bíó.

Glöggir lesendur sjá væntanlega að við vorum afar ánægð með Vín og skel og ég mæli hiklaust með honum. Pantið borð ef þið ætlið að kíkja inn um helgi.

veitingahús