Örvitinn

Á bjartari nótum. Úrskráningar úr Þjóðkirkjunni

Þessar stelpur eru ekki skráðar í ÞjóðkirkjunaTvær kvabbfærslur í röð, þetta gengur ekki lengur.

Horfum á björtu hliðarnar, heimurinn á ennþá félag eins og Vantrú sem þessa dagana stendur sig heldur betur vel í því að skrá fólk úr Þjóðkirkjunni. Á forsíðu Vantrúar er lítil klausa sem fer eflaust framhjá mörgum. Hún er uppfærð reglulega, stundum oft á dag. Þar stendur þessa stundina, Vantrú hefur nú aðstoðað eitthundrað þrjátíu og fjóra við að leiðrétta trúfélagsskráningu sína.

Ert þú eða einhver sem þú þekkir skráður í Þjóðkirkjuna þrátt fyrir að eiga litla eða jafnvel enga samleið með þessari evangelísk-lúthersku kirkju? Af hverju ekki að sækja þetta skjal (pdf skjal) á heimasíðu Hagstofunnar, fylla út og senda með faxi til Hagstofu (s. 569 2949). Þetta er ekki meira mál.

Hvort sem fólk telur sig eiga heima í Ásatrúfélaginu, Fríkirkjunni í Reykjavík, með Búddistum eða utan trúfélaga finnst mér engin ástæða til að fólk sé skráð í Þjóðkirkjuna bara vegna þess að það var sjálfkrafa skráð í þann klúbb þegar það fæddist. Takið af skarið og leiðréttið skráningu ykkar. Fæstir sætta sig við að vera skráðir í stjórnmálaflokk sem þeir eiga ekki samleið með, það sama á að gilda um trúfélög. Sérstaklega Þjóðkirkjuna sem afar reglulega réttlætir yfirgang sinn (t.d. leikskólatrúboð og trúaráróður í skólum) með þeim rökum að flestir íslendingar séu í félagar í klúbbnum, þetta sé í raun bara þjónusta við félagsmenn. Ég hef nákvæmlega ekkert á móti því að kristið fólk sé í Þjóðkirkjunni og sæki þjónustu til hennar, en ég veit að það er fullt af fólki í þessu trúfélagi sem á ekki heima þar en hefur ekki nennt að breyta skráningu sinni.

(Myndin tengist ekki efni færslunnar að öðru leyti en að hún fær mig til að brosa og stelpurnar eru ekki skráðar í Þjóðkirkjuna. Jú, þeir sem leiðrétta skráningu sína verða pottþétt svona glaðir þegar því er lokið)

kristni
Athugasemdir

Bragi - 09/02/06 14:27 #

Ég man eftir því fyrir tólf árum síðan þegar ég fyrst sagði mig úr þjóðkirkjunni. Þá var ég glaður, en aðeins í skamma stund. Ég komst að því að úrskráningin hafði fallið milli fjala. Þannig að ég reyndi aftur. Ég var svaka glaður þar til ég komst að því að vegna ósjaldgæfrar stafsetningavillu hjá einhverjum ritaranum hafði Bragi Skaptason verið skráður úr þjóðkirkjunni en ekki Bragi Skaftason. Þannig að ég reyndi aftur. Og það tókst. En ég varð ekki glaður, mér var eiginlega bara létt. Veit ekki hvort þessi stofnun hagi sér ennþá svona en þetta var víst klassískt fyrir úrskráningar úr þjóðkirkjunni á sínum tíma.

Matti - 09/02/06 16:00 #

Einhverntíman var það víst svo að þegar fólk flutti milli sókna var það sjálfkrafa skráð í sóknina í sínu hverfi og þar með í Þjóðkirkjuna, þó það hefði áður skráð sig úr henni. Sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Ég hef rökstuddan grun um að fjöldi íslendinga sé skráður í Þjóðkirkjuna án þess að hafa hugmynd um það. Koma þessar upplýsingar annars fram á skattframtali? Þ.e.a.s. upplýsingar um það hvert trúfélagaskatturinn, sem trúlausir þurfa líka að greiða, rennur?

Halldór E. - 09/02/06 16:48 #

Þetta er ekki rétt Matti, hins vegar var það svo að ef fólk í lúthersku Fríkirkjunum flutti sig um bæjarfélag, þá var það skráð í þjóðkirkjusöfnuðinn á nýjum stað.

Varðandi grunnleysi almennings þá held ég að hlutfallslega fleiri séu t.d. skráðir í Fríkirkjuna í Reykjavík án þess að vita það, en í Þjóðkirkjusöfnuðina. Ég held að flestir séu meðvitaðir um að þeir tilheyri þjóðkirkjunni því það gera, jú, allir :-).

Þessar upplýsingar koma því sem næst hvergi fram og ekki í skattframtali. Þannig hafði ég sem starfsmaður Grensáskirkju á sínum tíma ekki heimild til að notast við upplýsingar úr þjóðskrá um hverjir tilheyrðu kirkjunni. Einvörðungu sóknarprestur hafði aðgang að upplýsingunum um trúfélagaskráningu og þurfti að skrifa undir þegar hann fékk aðgang að skránni að hann einn mæti nota aðganginn.

Birgir Baldursson - 09/02/06 17:11 #

Við ættum að gera það að baráttumáli að trúfélagaskráning fólks komi fram á skattframtali. Ég er þó ekki viss um að Þjóðkirkjumönnum þyki það eftirsóknarverð breyting, því búast má við því að fjölmargir munu þá leiðrétta trúfélagaskráningu sína.

Hjalti - 09/02/06 17:57 #

Misminnir mig eða voru það ekki Ásatrúarmenn sem voru að kvarta yfir því að meðlimir þeirra sem fluttu á milli sókna voru sjálfkrafa skráið í Þjóðkirkjuna?

Birgir Baldursson - 09/02/06 18:28 #

Jú, það birtist grein um þetta í fréttabréfi Reykjavíkurdeildarinnar (eða heitir það Ásatrúarfélag Reykjavíkur?) í desember 2003, ef ég man rétt.

Hjalti - 10/02/06 13:57 #

Þá getur þetta varla verið rétt hjá Halldóri. Það væri að minnsta kosti skrýtið ef Ásatrúarmenn færu að kvarta yfir því að það fækkaði í Fríkirkjunum ;)