Örvitinn

Að leikslokum

Meðan ég puðaði á orbitrek tæki í ræktinni í morgun glápti ég á sjónvarpsþáttinn Að leikslokum á sjónvarpsstöðinni Enski boltinn. Ég hlustaði ekki, var með tónlist í gangi, en horfði á mörk úr leikjum helgarinnar enda forfallinn knattspyrnufíkill.

Ég er reyndar alveg hættur að horfa á þennan tiltekna þátt, legg mig ekki fram um að sjá hann, en fyrst hann var í sjónvarpinu milli sjö og átta í morgun skipti ég um æfingatæki og kom mér fyrir þannig að ég sæi vel á skjáinn.

Rifjaðist þá upp fyrir mér af hverju ég horfi yfirleitt ekki á þennan tiltekna þátt. Þetta er skelfilegt drasl. Í þættinum leggja menn sig víst fram um að fara yfir leiki helgarinnar og skoða merkileg atvik. Reyndar eru eiginlega einu atvikin sem þeir fara yfir mörkin, stundum vítaspyrnudómar og í undantekningartilvikum er farið yfir eitthvað annað. Í morgun, þar sem ég glápti á þáttinn og púlaði (reyndar frekar aumingjalegt púl í morgun, það verður að koma fram) fattaði ég af hverju ég nenni yfirleitt ekki að horfa á þennan blessaða þátt. Þeir sýna of lítið og þeir endurtaka það sem þeir þó sýna of oft. Yfirleitt fáum við bara að sjá mörkin úr leikjunum, kannski eitt annað færi. Mörkin eru svo endursýnd alveg fáránlega oft. Vissulega eru spekingarnir að velta fyrir sér hinu og þessu, spá í af hverju varnarmaðurinn var á þessum stað en ekki hinum, en fjandakornið, þeir sýna mörkin a.m.k. tíu sinnum.

Ég sá umfjöllun um tvo leiki í morgun, annars vegar leik Arsenal og Bolton hinsvegar voru sýnd helstu atvik úr leik Middlesboro og Chelsea. Ég sá hvorugan leikinn um helgina og var því spenntur að sjá þetta, var búinn að lesa á netinu að nokkur umdeild atvik hefðu átt sér stað í fyrri leiknum, þar með talið tvær afar grófar tæklingar og svo atvik þar sem Lehman, markvörður Arsenal stuggaði við einhverjum. Í þættinum sýndu þeir aðra tæklinguna, þar sem Faye braut á Reyes, slepptu atvikinu með Lehman en mega eiga það að þeir sýndu nokkur markskot Arsenal sem markvörður Bolton varði vel. Ég vildi sjá hina tæklinguna þar sem Flamini átti víst að fá rautt að sumra mati, ég vildi sjá atvikið með Lehman, fjandakornið, það er það sem allir netmiðlar fjölluðu um.

Úr leik Boro og Chelsea sýndu þeir mörkin þrjú og eitt mark sem dæmt var af. Af umfjöllun þeirra að dæma átti Chelsea ekki markskot eða sókn í leiknum. Hvað um það, ég þoli ekki Chelsea þannig að ég græt það ekki. En mörkin voru sýnd, aftur og aftur og aftur. Ég taldi endursýningarnar á þriðja marki Boro, sem Yakubu skoraði með glæsibrag. Markið var sýnt þrettán sinnum í röð. Fyrst fengum að sjá markið endurtekið níu sinnum, svo var skipt yfir í stúdíó í 15-30 sekúndur og svo var markið sýnt fjórum sinnum í viðbót. Allt í allt 13 sinnum. Er ekki allt í lagi? Ég hef gaman af því að sjá fallegt mark skorað og ekki skemmir fyrir ef það er á móti Chelsea, en andskotinn hafi það, ég var búinn að sjá nóg eftir fyrstu sjö skiptin. Vel getur verið að spekingarnir hafi verið að velta hinu og þessu fyrir sér, t.d. hvort um bakhrindingu hafi verið að ræða í aðdraganda marksins og hvort varnarmenn hafi yfir höfuð verið að vinna vinnuna sína, en fjandakornið, þrettán sinnum.

Hvernig væri að sýna fleiri atvik úr leikjunum og eyða örlítið minni tíma í hvert atvik? Á ég að trúa því að Chelsea hafi ekki átt marktækifæri í þessum leik? Þegar maður horfir á knattspyrnuleik eru iðulega atvik, leikkaflar og taktar sem mætti sýna síðar. Reyndar þurfa menn þá að horfa á heilan leik til að sjá þau atvik og kannski er til of mikils mælst af þáttastjórnendum að þeir leggi það á sig.

Ég sá byrjun á umfjöllum um leik Newcastle og Aston Villa. Fyrsta mark Newcastle kom eftir gott spil þar sem Shearer lagði boltann viðstöðulaust á Shola Ameobi sem skoraði. Vel gert og allt það, en þessi viðstöðulausa sending Shearar var sýnd aftur og aftur og aftur. Tvisvar hefði dugað, þrisvar var meira en nóg.

Nú kann einhver að setja út á að ég dæmi þáttinn eftir að hafa horft á hluta hans án hljóðs. Vert er að geta þess að ég hef séð þáttinn nokkrum sinnum, hann skánar ekkert með hljóði.

boltinn fjölmiðlar kvabb