Drullusokkarnir hjá Sýn ætlar að okra á HM
Við fengum tvö símtöl frá 365 í kvöld, þeir voru að reyna að selja okkur áskrift að Stöð2 og Sýn. Gott og vel, þetta reyna margir og við höfum keypt áskrift af og til en ákváðum fyrir síðustu mánaðarmót að sleppa Stöð2, dagskráin var einfaldlega ekki okkur að skapi (les: léleg), við vorum í raun bara að borga fyrir Idol.
En hvað um það, fram kom hjá sölumanni í kvöld að áskrift að Sýn í júní í sumar, þegar HM verður í gangi, mun kosta fyrir þá sem ekki eru þegar áskrifendur, þrettán þúsund og níu hundruð krónur. 13,900.- !!!
ER EKKI ALLT Í LAGI - ERU FORSVARSMENN ÞESSA FYRIRTÆKIS GEÐVEIKIR?
Eflaust ætla þeir sér með þessu að kúga fólk til að gerast áskrifendur núna, borga áskrift í nokkra mánuði í stað þess að greiða þetta lausnargjald í sumar. Ég get ekki réttlætt fjögur þúsund króna áskriftargjald að Sýn fyrir nokkra fótboltaleiki, sér í lagi ekki þegar ég borga tvö þúsund krónur á mánuði fyrir enska boltann eins og er. Sem fjölskyldumaður get ég ekki réttlætt útgjöld upp á hátt í annan tug þúsunda fyrir sjónvarpsáskrift í hverju mánuði ef ég tæki allan pakkann (RÚV, Stöð2, Sýn, EB). Ég veit ekki hvort þetta eru einhver ný fjármálafræði sem nú er kennd í viðskiptadeildum háskólanna, en þegar ég var ungur plebbi í Verzló lærði ég um hugtakið verðteygni eftirspurnar. Sýn er ósköp einfaldlega að verðleggja sig of hátt nema nógu margir láti kúga sig. Í gvuðanna bænum, ekki láta þessa andskota komast upp með það, horfið frekar á leikina annars staðar en heima hjá ykkur.
Ég mun semsagt ekki horfa á HM í sumar heima hjá mér ef þetta verður verðlagt á þennan hátt.
Tvö ár í röð hefur Sýn náð að plata mig til að kaupa áskrift með blekkjandi auglýsingum fyrir leiki Liverpool í forkeppni Meistaradeildar. Ég held að nú sé nóg komið.
17.02 09:45
Væntanlega mun Sýn reyna að réttlæta þetta með því að áskriftartímabil er frá 6. hvers mánaðar til 5. næsta mánaðar en HM hefst níunda júní og líkur níunda júli og nær þannig yfir tvö áskriftartímabil, ekki er hægt að kaupa einn og hálfan mánuð nema fyrri mánuðurinn sé hálfur. Á núverandi verði myndi þetta kosta rúmlega átta þúsund krónur, þannig að þeir eru að leggja a.m.k. sex þúsund ofan á þetta. Reyndar er það bara leikurinn um þriðja sæti sem fellur inn í júlímánuð því úrslitaleikurinn er sendur út í opinni dagskrá. Undanúrslitaleikirnir fara fram fjórða og fimmta júli.
Ef ég þyrfti að borga sex-sjö þúsund fyrir júnímánuð væri þetta ekkert mál, ég myndi sleppa leiknum um þriðja sætið og horfa á úrslitaleikinn í opinni dagskrá eða á knæpu ef hann er ruglaður. En fjórtán þúsund krónur, þeir hljóta að vera bilaðir.
Stebbi - 17/02/06 11:14 #
Ég fékk svona símtal fyrir hálfum mánuði og sagði sölumanninum að þetta "tilboð" hans fengi mig frekar til að íhuga að segja upp Stöð 2 en að gerast áskrifandi að Sýn.
Maður þyrfti að fá það endanlega staðfest frá 365 miðlum að þeir ætli raunverulega að setja verðið svona hátt upp. Ég trúi þessu nefnilega varla ennþá. Þeim er varla alvara með því að ætlast til að fólk borgi fimmhundruðkall á dag fyrir Sýn.