Örvitinn

Dagurinn í dag

Ég hóf þennan dag á því að skella mér á Players til að horfa á Liverpool sigra Manchester United á afar sannfærandi hátt. Stebbi mágur mætti á undan og tók frá sæti, annars var troðfullt þarna inni. Leikurinn var ágætur, Liverpool mun sterkara liðið og sigurinn sanngjarn. Ég gekk á reykvegg þegar ég mætti á staðinn og angaði verulega þegar út var komið. Óskaplega verð ég feginn þegar búið verður að úthýsa þessum andskotans reykingum. Af hverju borðaði ég tólf hundruð króna pizzu í hádeginu í reykjarsvælu?

Við kíktum í Smáralind og versluðum í kvöldmatinn. Komum við í vínbúðinni og gripum eina rauðvínsflösku til að hafa með. Keyptum einnig konudagsgöfina hennar Gyðu, en hún valdi sér nýjan gemsa sem hún er búin að leika sér með í allt kvöld. Alltaf gaman að fá nýja græju.

Ég fór í innibolta, mætingin var ekki góð, við vorum fjórir. Létum það ekki stoppa okkur og spiluðum smá fótbolta. Ég er alveg ónýtur í fótunum, haltra um eins og hölt..., tja, ég haltra um eftir innibolta tvo daga í röð. Stundum horfi ég á gamla menn með ónýta fætur og sé sjálfan mig í þeirra sporum áður en langt um líður.

Elduðum þennan fína kvöldmat í kvöld, lambakjötsrétt með sætum kartöflum úr litlu lambakjötsbók Gestgjafans. Drukkum með því The futures shiraz frá Peter Lehman, það þykir mér gott rauðvín á sanngjörnu verði.

Stelpurnar fengu að vaka og horfa á söngakeppnina. Kolla var nokkuð ánægð með úrslitin en ég held hún hafi samt haldið með Birgittu. Inga María sofnaði um leið og ég var búinn að lesa og slökkva ljósin.

dagbók