Örvitinn

Þreyttur málflutningur ritskoðunarsinna

Ég er dálítið þreyttur á málflutningi sumra ritskoðunarsinna sem halda því fram að þeir sem verja rétt manna til að teikna skopteikningar af Múhameð séu þar með þeirrar skoðunar að öllu megi halda fram og ekkert megi ritskoða. Þannig hef ég séð ritskoðunarsinna líkja þessu tiltekna máli við að birta myndir af barnaníði eða gera grín að pyntingum og fjöldamorðum. Einnig hafa menn líkt þessu við DV málið og gagnrýnt menn fyrir að skammast út í DV annars vegar en verja Jótlandspóstinn hins vegar.

Hver er eiginlega tilgangurinn með því að fara með umræðuna út á þessa braut? Hver er tilgangur örvita eins og ritstjóranna hjá Grapevine að líkja mönnum við nasista* fyrir að birta þessar myndir? Hvernig er hægt að fjalla um þetta tiltekna mál án þess að sýna myndirnar og ræða efni þeirra?

Persónulega tel ég að það séu mörk á því hvað réttlætanlegt er að fjalla um opinberlega en get engan vegin samþykkt að gagnrýni eða umfjöllun um trúarbrögð sé utan þeirra marka. Eftirgjöf í þeim málum er, að mínu hógværa mati, afar varasöm og endar með ósköpum. Það er alveg ljóst að trúarbrögð heimsins hafa aldrei þolað gagnrýni, ekki frekar Kristni en Íslam. Við þurfum meiri gagnrýna umfjöllum um trúarbrögð og önnur hindurvitni, ekki minni.

Takið eftir hvernig ég kalla þá sem eru þeirrar skoðunar að ekki hafi átt að birta myndirnar ritskoðunarsinna. Að sjálfsögðu er þetta alls ekki málefnalegt og engan vegin réttlætanlegur málflutningur, en hann er í takt við það sem sumir þeirra hafa látið frá sér undanfarið.

* If the editors of Grapewine happen to read this I would like to inform them that the Nazis were responsible for killing about six million Jews during the second world war, which they were also responsible for. DV printed cartoons. Notice the difference?

pólitík íslam