Örvitinn

Á að fangelsa þá sem afneita helförinni

Þetta mál var til umræðu í hádeginu í dag. Ég tel, eftir að hafa velt þessu aðeins fyrir mér, ekki rétt að dæma þá sem afneita helförinni. Samt skil ég að sum ríki Evrópu hafi slík lög. Þar hafa menn reynslu af uppgangi nasismans og vilja væntanlega gera allt til að berjast gegn slíkum öfgahópum. Helfararafneitun er óneitanlega nátengd nasisma. Það þýðir alls ekki að allir sem afneita helförinni séu nasistar, en þetta er samt tengt. Við erum að tala um atburði sem áttu sér stað fyrir rétt rúmlega sextíu árum. Ömmur og afar okkar flestra voru fullorðið fólk þegar þetta gerðist. Tugmilljónir létust, milljónir gyðinga voru drepnir. Fólkið í næsta húsi, á næsta bæ.

Ég tel það samt vitleysu að dæma Irving fyrir ummæli* sem hann lét frá sér fyrir sautján árum um þetta mál. Jafnvel þó hann hafi haldið fundi og boðað þetta kjaftæði.

Ég geri lítinn greinarmun á þeim sem afneita helförinni, tunglferðum eða þróunarkenningunni. Þetta eru upp til hópa fávitar, en ég vil nú samt ekki sjá þá í fangelsi þó þeir haldi þessum skoðunum fram.

Samt er ég eiginlega ráðþrota gagnvart þeim árangri sem þetta lið hefur náð í að útbreiða boðskap sinn. Það er of mikil einföldun að segja að hægt sé að svara því sem þeir segja, setja fram betri rök. Ég get ekki séð að það hafi virkað hingað til.

*Svansson bendir á í athugasemd hjá Stefáni að Irving var ekki dæmdur fyrir ummæli sín heldur fyrir að brjóta ferðabann. Það ferðabann kom að sjálfsögðu til útaf ummælum hans um helförina.

pólitík
Athugasemdir

SHIFT-3 - 22/02/06 13:25 #

Ég hef ekki séð neitt í skrifum um þetta mál sem styður þá fullyrðingu Svanssonar að dómurinn byggist á broti á ferðabanni. Þvert á móti fjölluðu réttarhöldin efnislega um fullyrðingar Irvings og ákæran snýst um þær.

Það kann svo sem að vera að um hafi verið að ræða eitthvert ferðabann sem hafi þá haft áhrif til refsiþyngingar - en málið snýst fyrst og fremst um ummælin.

Í grein í Guardian er reyndar haft eftir konu Irvings: Last night Irving's partner Bente Hogh said he had brought his imprisonment on himself by going to Austria despite the ban. She said: "He was not jailed just for his views but because he's banned from Austria and still went. David doesn't take advice from anyone. He thought it was a bit of fun, to provoke a little bit."

Þessi setning kann að hafa komið af stað þeim misskilningi að réttarhöldin hafi snúist um ólöglega dvöl í landinu.