Örvitinn

Flóttatilraun

Inga María flúði af leikskólanum í gær.

Reyndar flúði hún ekki langt, en flóttinn var ansi merkilegur. Nokkrir strákar af kisudeild höfðu dundað sér við að moka holu undir girðinguna. Þegar kom að því að fá einhvern til að fara undir lét Inga María tilleiðast og skreið í gegn. Stóð svo hinum megin við girðinguna þar til fóstra kom og sótti hana.

Mér finnst þetta dálítið broslegt en fóstrunum þótti þetta alvarlegur glæpur. Inga María var send inn og var "yfirheyrð" af leikskólastjóra, þurfti að nefna aðra sökudólga í glæpnum.

Kolla þvertekur fyrir að hafa tekið þátt í þessu en missti þó út úr sér að "steinninn" hefði verið rosalega þungur. Steinninn sem um er rætt er hellusteinn sem krakkarnir þurftu að lyfta áður en þau gátu mokað holuna.

fjölskyldan
Athugasemdir

Már - 12/03/06 01:14 #

Sniðugir krakkar!

Það að þeim hafi tekist þetta segir kannski líka sitt hvað um eftirlitið sem er haft með börnunum á þessum ákveðna leikskóla. Ef hópur barna kemst upp með að dunda sér við að grafa flóttagöng og flýja um þau - hvað fleira gerist þá þarna án þess að neinn fullorðinn fylgist með því?

Eyja - 12/03/06 15:03 #

Hehe. Systir mín og þar með frænka Ingu Maríu og nafna strauk líka einu sinni af sínum leikskóla og komst m.a.s. talsvert lengra en þetta, dúkkaði upp í óvæntri heimsókn hjá pabba. Þetta fylgir kannski nafninu eða kannski þetta sé í blóðinu. Sigurlaug langamma okkar Gyðu þótti víst sérlunduð og þrjósk.

Matti - 13/03/06 10:29 #

Inga María lét mana sig út í þessa vitleysu, en hún má eiga það að hún er ekki hrædd við að framkvæma allskonar vitleysu, klifrar og stekkur þar sem stóra systir hennar þorir ekki.

Már, ég sagði einmitt þetta sama við Gyðu, varla er þetta vitnisburður um gott eftirlit. Það geta svosem verið skýringar og ekki er hægt að ætlast til að fóstrur sjái allt, en þarna hefði einhver mátt taka eftir framkvæmdunum :-)