Örvitinn

Sínum augum lítur hver á silfrið

Svo rammt kveður að þessu að ef einhver slysast til að gefa í skyn að það þurfi nú stundum að sýna öðrum virðingu og tillitssemi þá dugar ekkert minna en að sami einstaklingur birti opinbera afsökunarbeiðni og dragi hinar hræðilegu skoðanir til baka. Málfrelsið er jú svo mikilvægt, skilurðu. #

Þetta er, að mínu hógværa mati, ekki rétt lýsing á umræðu síðustu vikna . Eiginlega hef ég upplifað hana á þveröfugan hátt og ef ég myndi nota sama ýkjustíl og Sverrir í þessu tilviki myndi ég segja að þeir sem dirfast að verja þessa birtingu teiknimyndanna af Múhameð séu einfaldlega fasistar í augum sumra. Fyrir utan það náttúrulega að hafa enga þekkingu á Íslam, austurlöndum eða útlöndum yfir höfuð, hafa ekki lesið réttar bækur og myndu ekki skilja þær ef þeir myndu reyna.

En sínum augum lítur hver á silfrið, svo er víst. Vandamálið er bara að útaf þessari taktík er ekki nokkur leið að skiptast á skoðunum. Kannski er það markmiðið!

pólitík íslam
Athugasemdir

Sverrir - 11/03/06 19:28 #

Eflaust má deila um margt en ekki þá staðreynd að rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson dró tilbaka skoðun sína í þessu máli og hélt hinu gagnstæða fram. Í nafni málfrelsis.

Þannig að hér var engu logið af minni hálfu.

Matti - 11/03/06 20:01 #

Ekki var það ætlum mín að saka þig um lygi hér.

En varla ertu að segja að Guðmundur Andri hafi verið neyddur til að draga orð sín til baka? Skipti hann ekki einfaldlega um skoðun þegar honum fannst umræðan vera komin út í vitleysu?

Sverrir - 11/03/06 20:34 #

Nei, ég er ekki að segja það. Kannski var það ljótt af mér að hæðast að tíðum skoðanaskiptum Guðmundar Andra.

Eyja - 12/03/06 14:58 #

Mér hefur fundist ansi grunnt á lágkúrunni í þessari umræðu hér á landi, því miður. Það virðist ekki hægt að opna munninn um þetta tiltekna mál án þess að vera skipað í einhverja með/móti-fylkingu. Annars vegar eru þeir sem vilja sýna múslimum virðingu og tillitssemi og þeir eru víst á móti málfrelsi og vilja láta banna skopmyndir. Hins vegar eru þeir sem vilja verja málfrelsið og þeir eru víst á móti því að sýna múslimum virðingu og tillitssemi og vilja helst láta sprengja þá alla í tætlur. Rosalega spennandi umræða!