Örvitinn

Lítil saga um viðskiptavild (Og Vodafone)

Fyrir mánuði keyptum við nýjan gemsa handa Gyðu í tilefni konudags. Síminn hefur virkað illa alla tíð, rafhlaðan tæmist á sólarhring þó síminn sé lítið eða jafnvel ekkert notaður. Einnig tekur óralangan tíma að kvikna á símanum. Þegar ég segi óralangan er ég ekki að ýkja, við erum að tala um 20-30 mínútur!

Um helgina fór Gyða í verslun Og Vodafone í Smáralind, þar var henni boðið að síminn væri sendur í viðgerð en ekki var hægt að lána henni síma á meðan. Við fórum í verslun Og Vodafone í Síðumúla í hádeginu og þó þjónustan þar væri betri var tilboðið ekki betra, þeir sendu símann í viðgerð og buðu okkur lánssíma. Lánssíminn var, vel að merkja, handónýtt drasl, eldgamalt og hrikalega illa farið símtæki. Ég fór fram á að fá að skila símanum og fá nýjan þar sem þetta væri gölluð vara og hefði aldrei virkað sem skyldi. Svarið sem ég fékk var að við værum of sein. Ef við hefðum komið strax hefði ég getað fengið annan. Ég afþakkaði lánssímann, gamli síminn hennar Gyðu er miklu betri.

Nú er það þannig þegar fólk kaupir raftæki fyrir átján þúsund krónur að það prófar það fyrst. Við fórum heim með símann og settum í hleðslu. Hann entist ekki lengi, en við héldum að það væri eðlilegt til að byrja með, sumar rafhlöður þarf að hlaða nokkrum sinnum svo þær nái fullri hleðslu. Það má segja að það hafi liðið a.m.k. vika þar til við vorum sannfærð um að rafhlaðan væri ekki í lagi. Það slökknaði ekki oft á símanum þannig að það leið lengri tími þar til við áttuðum okkur á því að það tekur alltaf um 20-30 mínútur að kvikna á tækinu. Fólk hefur ekki alltaf tækifæri til að skjótast í verslun Og Vodafone þannig að mér finnst þetta svar þeirra gjörsamlega hrikalegt.

En það sem verra er, hvað eru þeir að spá? Og Vodafone selur símaþjónustu, þeir eru ekki í símtækjasölubransanum, það er aukabransi. Þegar viðskiptavinur þeirra (við erum með þrjá gsm síma í áskrift hjá þeim) kemur með gallaða vöru eiga þeir að skipta henni um leið, ekki einu sinni spyrja spurninga. Af hverju? Jú, vegna þess að ef þessi viðskiptavinur verður óánægður með þjónustuna færir hann einfaldlega viðskipti sín til samkeppnisaðila.

Það er, að mínu hógværa mati, óásættanlegt að þurfa að senda þenna síma í viðgerð í tvær vikur útaf galla. Bilun sem hefur verið frá því við fengum símann afhentan í verslun Og Vodafone í Smáralind.

Þessvegna erum við að fara að færa viðskipti okkar. Mér hefur staðið til boða í langan tíma að færa símann yfir á vinnuna sem er í viðskiptum hjá Símanum. Ég er búinn að vera með gsm hjá Tal og síðan Og Vodafone frá 1998. Takk fyrir samveruna Og Vodafone og bless.

Svona virkar nefnilega þessi dularfulla viðskiptavild, þetta er ekkert flókið. Einn daginn ertu með kúnna, næsta dag styggir þú hann og þá hefur þú hann ekki lengur. Markaðsfólk veit að það kostar miklu meira að ná í nýjan kúnna en að halda núverandi.

Þetta var lítil saga af viðskiptavild sem visnaði og dó.

kvabb
Athugasemdir

-DJ- - 20/03/06 21:36 #

Sammála skilgreiningu þinni á viðskiptavild, var einmitt að skrifa kvabb póst til sóðafóns rétt áðan, tenging til útlanda hefur verið döpur lengi, ping bbc.co.uk skilar t.d. 250+ en ætti að vera nálægt 50.

Ekki er nú betra fyrir þá að missa mig sem viðskiptavin, 1 adsl tenging, 1 shdsl tenging, 3 gsm símar og 3 jarðlínusímar.

Óskar - 21/03/06 09:38 #

Ég gaf skít í þá eftir að þeir keyrðu reikninga úr kerfinu sínu á fyrrum viðskiptavini islandia sem þeir yfirtóku. Ég hafði verið kúnni þar fyrir nokkrum áruð síðan. Allt í einu birtist reikningur í heimabankanum mínum uppá 10 þúsund. Fékk aldrei sjálfur gíró seðil og skildi aldrei fyrir hvað þeir voru að gjaldfæra. Þá átti sem sagt að rukkað 2 árum seinni fyrir þjónustu sem ég bað ekki um. Ég þurfti að hringja 3 sinnum og fara 2 ferðir í síðumúla til að losna við þessa plágu. Það fóru margar klukkustundir í súginn. Starfsmenn voru kurteisir og allt það en ruglið í kringum þetta var skelfilegt.

Matti - 21/03/06 15:10 #

Hér var ekki ætlunin að safna saman neikvæðum sögum um Og Vodafone :-) Eflaust er hægt að tína til álíka stóran hóp óánægðra fyrrverandi viðskiptavina beggja stóru símafyrirtækjanna.

Ég fæ aftur á móti nýtt gsm-númer í dag eða á morgun, auglýsi það hér.

Stebbi - 21/03/06 15:34 #

Þarf maður að skipta um númer þegar maður skiptir um símafyrirtæki? Ég hélt að það væru reglur um að hægt væri að flytja númerið sitt með sér á milli fyrirtækja. Mig minnir meira að segja að það hafi verið Og Vodafone (eða forverar þess) sem fengu þessar reglur samþykktar til að auðvelda fóki að skipta um símafyrirtæki, til að ný fyrirtæki gætu betur keppt við ráðandi aðilann á markaðnum.

Matti - 21/03/06 17:14 #

Það er rétt, það er hægt að flytja númer á milli í dag.

En til að fá símann á kostnað vinnunnar þarf ég aftur á móti að skipta um númer. Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef verið áfram hjá Og Vodafone síðastliðið ár, ég hef ekki nennt að skipta um númer. Fyrr en í dag, er kominn með nýtt kort, skipti í kvöld.

Eiki plögg - 21/03/06 20:36 #

Póst og Fjarskiptastofnun skikkaði fyrirtækin til að láta flutning númera á milli fyrirtækja að vera mögulegann. Hann var það í þeim löndum GSM sem við berum okkur saman við og engin ástæða til að neita þessu lengur. Hvorki Vodafone (Tal/Íslandssíma) né Símanum að þakka.

Held líka að flestir þekki bæði hryllingssögur um bæði fyrirtækin. Eflaust engin tilgangur að safna þeim svona saman, maður stundar bara viðskipti þar sem maður er sáttur.

Ég fyrir mitt leiti ætla ekki að versla við 365 né þeirra fyrirtæki á meðan ég kemst hjá því eftir að hafa séð verðskránna fyrir HM2006. Ég læt ekki hafa mig að fífli, borgar frekar 1990 krónurnar fyrir enska boltann. það þykir mér langtum sanngjarnara verð, ekki verið að taka mann í óæðri endann þar.

Lifi samkeppnin.